VIÐSKIPTASKILMÁLAR NETGÍRÓ

11. nóvember 2015

1. Aðilar skilmála

a. Samningur er gerður milli viðskiptavinar og Netgíró. Viðskiptavinur er sá sem uppfyllir ákvæði þessa viðskiptaskilmála og hefur verið samþykktur af Netgíró.

2. Umsókn viðskiptavinar.

a. Allir þeir sem hafa náð 18 ára aldri, eru fjárráða, með íslenska kennitölu, eru með lögheimili á Íslandi og eru með netfang og farsímanúmer sem gefið er upp í samskiptum við Netgíró er heimilt að sækja um aðgang að Netgíró með því að fylla út umsókn á vefsvæði Netgíró, í snjallsímaforriti (e. App) eða með öðrum leiðum sem eru í boði á hverjum tíma.

b. Netgíró áskilur sér rétt til að leita allra nauðsynlegra upplýsinga, þar á meðal upplýsinga um fjármál viðskiptavina í gagnagrunni Creditinfo og í eigin gögnum varðandi fyrri viðskipti, til að afgreiða umsóknir. Á þeim grunni metur Netgíró hvort viðskiptavinur sé greiðsluhæfur og hvort hann standist önnur skilyrði sem Netgíró setur gagnvart viðskiptavinum sínum.

c. Netgíró er heimilt að hafna umsóknum viðskiptavina án þess að tilgreina ástæðu.

d. Vilji viðskiptavinur afturkalla umsókn sína skal hann tilkynna það skriflega til Netgíró.

3. Gildistaka.

a. Samningur aðila tekur gildi um leið og viðskiptavinur hefur staðfest skráningu með samþykki skilmála Netgíró.

4. Hámarksúttekt, greiðslur og reikningsyfirlit.

a. Viðskipti með Netgíró eru bundin við ákveðnar hámarksúttektarheimildir sem eru byggðar á útlánamati Netgíró og lánshæfismati Creditinfo.

b. Viðskiptavinir Netgíró geta valið um að greiða með þeim greiðslumöguleikum sem í boði eru hverju sinni hjá Netgíró. Verðskrá fyrir þjónustu Netgíró má nálgast á https://www.netgiro.is/verdskra

c. Viðskiptavinur getur, innan 14 daga frá kaupum, breytt 14 daga reikningi í raðgreiðslur á „Mínar síður“ á https://www.netgiro.is/ eða í gegnum snjallsímaforrit Netgíró (e. App). Greiðslur skulu berast Netgíró samkvæmt dagsetningum sem Netgíró ákveður og birtast í netbanka viðskiptavinar. Viðskiptavinur getur ekki breytt greiðslum sem greiddar hafa verið með greiðslukortum.

d. Viðskiptavinur getur hvenær sem er greitt úttektir að fullu. Úttektir lækka aðeins þegar greiðslur berast til Netgíró.

e. Netgíró er heimilt að skuldajafna gjaldfallnar greiðslur á móti inneign hjá þeim sem taka á móti greiðslu í gegnum Netgíró við sölu á bland.is. Viðskiptavinur getur einnig óskað eftir því að inneignum verði skuldajafnað á móti lánum hjá Netgíró.

f. Ef viðskiptavinur skilar vöru til söluaðila er það háð skilareglum söluaðila hvort úttekt hjá Netgíró lækki því sem vöruskilum nemur eða viðskiptavinur fái inneignarnótu. Ef skilareglur seljanda leyfa endurgreiðslu ber seljanda að tilkynna Netgíró um vöruskilin og mun úttekt viðskiptavinar lækka sem vöruskilunum nemur eða hluti fjárhæðar endurgreiddur eftir því sem við á. Ef greiðsla hefur átt sér stað með greiðslukorti er fjárhæð endurgreidd inn á viðkomandi greiðslukort.

g. Viðskiptavinur greiðir tilkynninga- og greiðslugjald skv. verðskrá Netgíró sem má nálgast á www.netgiro.is/verdskra.
h. Netgíró stofnar kröfur í netbanka viðskiptavinar vegna úttekta. Viðskiptavinur getur nálgast reikningsyfirlit á „Mínar síður“ á https://www.netgiro.is/. Á yfirlitinu má sjá úttektir og innborganir viðskiptavina sem og aðrar gagnlegar upplýsingar. Um greiðslur með greiðslukortum, sjá 5 gr. í skilmálum þessum.

i. Við skil eða breytingu á vöru eða þjónustu sem leiðir til verðbreytinga er Netgíró heimilt að breyta reikningi í samræmi við verðbreytinguna, hvort sem er til lækkunar eða hækkunar. Innheimti söluaðili sérstakt breytingargjald fyrir verðbreytingu eða vöruskilum skal það innheimt með útgáfu á nýjum Netgíró reikningi fyrir breytingargjaldinu í samræmi við þær upplýsingar sem söluaðili sendir til Netgíró. Viðskiptavinur hefur 14 daga greiðslufrest til að greiða reikning vegna breytingargjalds eða vöruskila. Breytingargjaldið er skuldfært af greiðslukortum.

5. Greiðslur með greiðslukortum

a. Viðskiptavinur Netgíró getur greitt fyrir Netgíróviðskipti með greiðslukortum..

b. Viðskiptavinur skráir greiðslukortanúmer sitt hjá Netgíró. Netgíró geymir ekki greiðslukortanúmer heldur styðst við svokallað sýndarnúmer sem notað verður framvegis og því er kortanúmer viðskiptavinar hvergi sjáanlegt.

c. Ef greitt er með greiðslukorti fyrir Netgíróviðskipti skuldfærist greiðslan á kort viðskiptavinar.

d. Netgíró er heimilt að takmarka úttektir af greiðslukortum við ákveðnar hámarksfjárhæðir sem Netgíró ákveður í hverju tilfelli fyrir sig.

e. Takist ekki að skuldfæra greiðslukort viðskiptavinar hefur Netgíró heimild til að stofna kröfu í netbanka viðkomandi með úttektarfjárhæð að viðbættum kostnaði. Um vanefndir, sjá 8. gr. skilmála þessa.

6. Villur og athugasemdir

a. Ef viðskiptavinur hefur athugasemdir varðandi reikninga skulu slíkar athugasemdir tilkynntar skriflega til Netgíró fyrir eindaga. Að öðrum kosti telst reikningur réttur.

b. Netgíró tekur ekki ábyrgð á gallaðri vöru sem greitt er fyrir með Netgíró. Kvörtunum vegna slíkra atvika skal beina til viðkomandi seljanda. Netgíró ber enga ábyrgð á á gæðum keyptrar vöru eða þjónustu.

c. Netgíró ber ekki ábyrgð á því ef viðskiptavini er hafnað af söluaðila um úttekt af reikningi sínum hjá Netgíró, né því tjóni sem leitt getur af því atviki.

d. Telji viðskiptavinur að greiðsla með Netgíró hafi verið gerð með sviksamlegum hætti ber honum að tilkynna Netgíró það án tafar. Ávallt þegar grunur leikur á um sviksamlega notkun mun Netgíró loka fyrir reikning viðskiptavinar. Viðskiptavini ber skylda til að aðstoða Netgíró við úrvinnslu málsins og takmarka tjón eins og kostur er.

7. Sérstök ákvæði vegna viðskipta á bland.is

a. Starfsmönnum Netgíró er heimilt að upplýsa starfsmenn bland.is ef lokað hefur verið fyrir söluheimild með Netgíró vegna sölu á bland.is og ef söluheimild hefur verið hækkuð eða lækkuð.

b. Netgíró er heimilt að loka fyrir Netgíró söluheimild viðskiptavinar á bland.is eða öðrum markaðstorgum ef vart verður við eða upplýsingar berast um að seljandi bjóði ólöglegan varning/ólöglega þjónustu og bjóði upp á greiðslu með Netgíró.

8. Eindagi greiðslna, vanskil og aðrar vanefndir.

a. Ef viðskiptavinir greiða ekki úttektir sínar á eindaga, reiknast dráttarvextir eins og þeir eru auglýstir af Seðlabanka Íslands hverju sinni, af úttektum frá gjalddaga til greiðsludags. Á meðan viðskiptavinur er í vanskilum áskilur Netgíró sér rétt til að loka fyrir frekari viðskipti, þar til gjaldfallin skuld er að fullu uppgerð.

b. Netgíró áskilur sér rétt til að krefja viðskiptavin um útlagðan kostnað og gjöld sem fyrirtækið verður fyrir vegna viðskiptavinar svo sem við mat á útlánaheimildum og lánshæfi. Við innheimtu gjaldfallins kostnaðar eða gjalda er farið eftir innheimtulögum nr. 95/2008 og reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009.

c. Viðskiptavinur Netgíró heimilar Netgíró að óska skráningar á vanskilaskrá Creditinfo á vanskilum viðskiptavina sem hafa varað í að minnsta kosti 40 daga frá eindaga að öðrum skilyrðum uppfylltum.

d. Við verulegar vanefndir viðskiptavinar á skuldbindingum sínum samkvæmt samningi hefur Netgíró heimild til að gjaldfella alla reikninga viðskiptavinar þegar í stað. Gjaldfelling reikninga hefur sömu þýðingu og að allir reikningar séu komnir á eindaga. Verulegar vanefndir viðskiptavinar teljast að mati Netgíró hafa orðið þegar eitthvert af eftirfarandi atriðum hefur átt sér stað:

i. Reikningar frá Netgíró eru komnir fram yfir eindaga án þess að samið hafi verið um greiðslu.
ii. Gjaldfellingarheimild í fjármálagerningi þar sem viðskiptavinur er skuldari eða ábyrgðarmaður er nýtt af kröfuhafa, viðskiptavinur er dæmdur af Héraðsdómi til greiðslu peningaskuldar, gert er fjárnám eða árangurslaust fjárnám í eignum/réttindum viðskiptavinar, viðskiptavinur óskar eftir greiðslustöðvun, viðskiptavinur leitar eftir nauðasamningum, frjálsum nauðasamningum, nauðasamningum samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., lögð er fram beiðni um gjaldþrotaskipti á búi viðskiptavinar, beiðni er lögð fram um nauðungarsölu á eignum viðskiptavinar, viðskiptavinur leitar eftir greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara eða verulega líkur eru á því að mati Netgíró að viðskiptavinur geti ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.
iii. Viðskiptavinur tekur upp fasta búsetu utan Íslands.
iv. Netfang viðskiptavinar verður óvirkt áður en hann hefur tilkynnt Netgíró um nýtt netfang.
v. Viðskiptavinur hefur gefið Netgíró rangar upplýsingar við skráningu.

f. Öll misnotkun á viðskiptareikningi varðar við almenn hegningarlög nr. 19/1940 og verður kærð til lögreglu.

9. Vextir á úttektum.

a. Netgíró birtir á heimasíðu sinni ársvexti sem eru í gildi á hverjum tíma. Verðskrá fyrir þjónustu Netgíró má nálgast á www.netgiro.is/verdskra. Netgíró er heimilt að breyta vöxtum án fyrirvara með einhliða tilkynningu til viðskiptavina.

b. Netgíró er ekki heimilt að breyta vöxtum eftir að viðskipti hafa átt sér stað nema sökum utanaðkomandi breytinga sem eru ekki af völdum Netgíró.

10. Persónuupplýsingar

a. Persónuupplýsingar sem berast til Netgíró eru skráðar rafrænt í gagnagrunn Netgíró. Viðskiptavinur samþykkir að Netgíró noti kennitölu hans sem ígildi notendanafns í tölvukerfi og gagnagrunni Netgíró. Allar persónuupplýsingar sem skráðar eru í gagnagrunn Netgíró eru dulkóðaðar.

b. Gagnagrunnur Netgíró heldur með rafrænum hætti utan um upplýsingar um viðskiptavini, viðskipti þeirra og samskipti milli þeirra og Netgíró. Þá heldur gagnagrunnurinn utan um samninga sem viðskipavinir gera við Netgíró. Netgíró heldur utan um gögn í að lágmarki 7 ár eftir að viðskipti eiga sér stað. Með þeim gögnum sem að ofan greinir hefur Netgíró heimild til að greina kauphegðun viðskiptavinar í þeim tilgangi að veita betri þjónustu til að mynda með tilboðum, markpósti eða sambærilegu efni.

c. Netgíró er heimilt að safna persónuupplýsingum og vinna úr þeim í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lög nr. 81/2003 um fjarskipti. Tilgangur Netgíró með söfnun persónuupplýsinga lítur að því að meta greiðsluhæfi vegna viðskipta. Viðskiptavinur heimilar Netgíró jafnframt að afla upplýsinga, eftir þörfum, frá þriðja aðila á sviði greiðsluhæfismats eða úr þar til gerðum gagnagrunnum. Komi í ljós við mat á greiðsluhæfi viðskiptavinar að viðkomandi sé á vanskilaskrá áskilur Netgíró sér rétt til að hafna viðskiptavini um samning. Við öflun og meðferð persónuupplýsinga er gætt ítrasta öryggis sem felur m.a. í sér að allar bankaupplýsingar viðskiptavinar eru geymdar með dulkóðuðum hætti.

d. Viðskiptavinur samþykkir hljóðritun símtala sem Netgíró er heimilt að gera sbr. 48. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003. Með vísun í framangreint þá kunna símtöl milli starfsmanna Netgíró og viðskiptavinar að vera hljóðrituð án þess að þess sé sérstaklega getið í upphafi hvers símtals, en tilgangur með símaupptökum er að varðveita heimildir um samskipti milli aðila. Netgíró ábyrgist ekki að öll símtöl verði hljóðrituð. Netgíró ber ekki ábyrgð ef símtal hefur ekki verið hljóðritað. Viðskiptavinur samþykkir að Netgíró hefur m.a. heimild til þess að nýta hljóðritanir í dómsmáli gegn viðskiptavini.

e. Með samþykki á skilmálum þessum veitir viðskiptavinur Netgíró fullt umboð til að kalla, eftir þörfum, eftir upplýsingum um lánshæfismat sitt hjá Creditinfo. Lánshæfismat spáir fyrir um líkur á alvarlegum vanskilum í framtíðinni og byggir á upplýsingum sem Creditinfo safnar og/eða miðlar, svo sem upplýsingum úr vanskilaskrá (þ.m.t. uppflettingum), hlutafélagaskrá, skattskrá o.fl. Lánshæfismatið byggir á samkeyrslu gagna og getur innihaldið sögulegar upplýsingar, svo sem um stöðu vanskila og lánshæfismats. Samkvæmt lögum nr. 33/2013 um neytendalán er lánveitendum skylt að meta lánshæfi umsækjenda áður en lánasamningur er gerður. Nánari upplýsingar um lánshæfismat Creditinfo má finna á www.creditinfo.is.
Með samþykki á skilmálum þessum samþykkir viðskiptavinur og heimilar að framangreindar upplýsingar verði nýttar og sóttar í þeim tilgangi að ákvarða fjárhæð úttektarheimilda viðskiptavinar hjá Netgíró og til að uppfæra umræddar úttektarheimildir, sem og við eftirlit í tengslum við slík viðskipti enda hafi Netgíró lögvarða hagsmuni af notkun umræddra upplýsinga skv. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Viðskiptavinur veitir þeim innheimtuaðilum sem sjá um innheimtu vanskilaskrafna fyrir Netgíró heimild til að sækja fyrrnefndar upplýsingar til Creditinfo, enda byggi slíkt á lögvörðum hagsmunum Netgíró
Viðskiptavini er heimilt að afturkalla samþykki þetta og skal slík afturköllun taka gildi 30 dögum eftir að Netgíró hefur sannanlega móttekið slíka afturköllun. Þá fellur samþykki þetta úr gildi þegar viðskiptasambandi aðila lýkur. Fram til þess tíma hefur Netgíró heimild til að sækja og nota þær upplýsingar sem samþykki þetta tekur til að fullnægðum þeim skilyrðum sem fram koma hér að ofan. Afturkalli viðskiptavinur samþykki þetta getur Netgíró hafnað honum um frekari viðskipti.
Viðskiptavinur heimilar Netgíró að miðla skráðu netfangi sínu til Creditinfo vegna uppflettinga á lánshæfismati og að Creditinfo geti sent tilkynningu með tölvupósti þess efnis til viðskiptavinar. Allar nánar upplýsingar um hlutaðeigandi upplýsingar Creditinfo sem kunna að vera notaðar af Netgíró, má finna á http://www.creditinfo.is.

11. Markaðsefni

a. Netgíró er heimilt að nota þær persónuupplýsingar sem að ofan greinir fyrir markaðs- og viðskiptakannanir, til að greina kauphegðun viðskiptavina og vegna aðgerða sem draga úr áhættu viðskipta. Aðgerðir sem draga úr áhættu leiða ennfremur til hærra gæðamats. Skriflegar beiðnir um það hvernig Netgíró meðhöndlar persónuupplýsingar og beiðnir um leiðréttingar á þegar uppgefnum persónuupplýsingum sendist til Netgíró á netfangið netgiro@netgiro.is.

b. Netgíró er heimilt að senda viðskiptavinum sínum markpóst og annað markefni sem viðskiptavini er heimilt að afþakka með tilkynningu þar að lútandi.

12. Samskipti og mikilvægar upplýsingar

a. Við staðfestingu skráningar skuldbindur viðskiptavinur sig að hlíta þeim kjörum og skilmálum sem gilda um þjónustu Netgíró á hverjum tíma. Verði breytingar á upphaflegri skráningu, t.d. á heimilisfangi, símanúmeri eða netfangi, skal viðskiptavinur breyta upplýsingum á „Mínar síður“ á www.netgiro.is eða tilkynna breytingu til Netgíró með því að hafa samband við þjónustuver. Jafnframt hefur Netgíró heimild til að sækja slíkar upplýsingar til Þjóðskrár. Verði dráttur á tilkynningu um breytingu eða ef breytingar berast ekki til Netgíró getur Netgíró ekki ábyrgst að tilkynningar berist viðskiptavini á tilsettum tíma.

b. Undir tilkynningar frá Netgíró falla meðal annars staðfestingar á breytingum viðskiptavina, tilkynningar varðandi samningsskilmála, breytingar á þeim og breytingar á verðskrá. Netgíró er frjálst að senda tilkynningar til viðskiptavina með öðrum hætti en rafrænum pósti, s.s. bréfpósti og smáskilaboðum (SMS og „push notifications“).

c. Viðskiptavinur staðfestir að honum sé ljóst að notkun tölvupósts og annarra rafrænna samskiptaleiða getur falið í sér áhættu, að slík samskiptaleið tryggi ekki leynd eða öryggi samskipta. Netgíró ber enga ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna þess að framangreindar samskiptaleiðir voru notaðar. Þjónustuver Netgíró framkvæmir reglulega áreiðanleikakannanir viðskiptavina með því að fylgja pöntunum eftir með símtali eða tölvupósti. Sjá opnunartíma þjónustuvers hér: https://www.netgiro.is/thjonustuver/

13. Uppsögn samnings.

a. Á milli Netgíró og viðskiptavinar gilda lög nr. 33/2005 um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Samkvæmt ákvæðum þeirra laga hefur viðskiptavinur rétt til að falla frá samningi án greiðslu og viðurlaga og án þess að tilgreina nokkra ástæðu, ef viðskiptavinur sendir tilkynningu þar að lútandi til Netgíró innan 14 daga frá þeim degi sem viðskipti áttu sér stað.

b. Frestur til að falla frá samningi byrjar að líða þegar kaup með Netgíró hafa átt sér stað. Ef síðasti dagur frestsins fellur á helgi eða er frídagur, lýkur frestinum næsta virka dag. Falli nú viðskiptavinur frá samningi eftir að umsókn hans berst Netgíró, en áður en umsókn er afgreidd, hefur Netgíró heimild til að krefja viðskiptavin um greiðslu fyrir þá þjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi, samanber ákvæði 14. gr. laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Ef viðskiptavinur óskar eftir því að falla frá samningi í samræmi við framangreint skal viðskiptavinur senda beiðni sína skriflega til Netgíró áður en fresturinn rennur út. Netgíró getur krafið viðskiptavin um greiðslu fyrir þá þjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi að ósk viðskiptavinar áður en frestur til að nýta sér rétt til að falla frá samningi var liðinn. Til að tryggja sönnun á ósk um að falla frá samningi er t.d. hægt að fara þá leið að senda bréf til Netgíró með ábyrgðarpósti og geyma kvittun frá póstinum. Réttur til að falla frá samningi gildir ekki um þá samninga sem hafa verið efndir að fullu af báðum aðilum að ósk viðskiptavinar.

c. Tilkynningu um að viðskiptavinur falli frá samningi skal beina til Netgíró með sannanlegum hætti. Óski viðskiptavinur eftir að segja upp samningssambandi við Netgíró af öðrum ástæðum skal tilkynningu þess efnis beint til heimilisfangs Netgíró með sannanlegum hætti. Eftir uppsögn getur viðskiptavinur ekki óskað eftir frekari þjónustu.

14. Breyting á skilmálum.

a. Netgíró áskilur sér allan rétt til breytinga á skilmálum þessum. Ef um er að ræða breytingar sem eru ekki til hagsbóta fyrir viðskiptavin skal tilkynna honum um þær á tryggan hátt með minnst 7 daga fyrirvara fyrir gildistöku breytinganna.

b. Í tilkynningu um breytta skilmála skal taka fram í hverju breytingarnar felast og á rétti viðskiptavina til að slíta viðskiptum. Við notkun á Netgíró eftir að breyttir skilmálar taka gildi telst viðskiptavinur hafa samþykkt breytinguna.

c. Birting breyttra skilmála með tilkynningu til viðskiptavina á skráð netfang telst nægileg tilkynning.

15. Önnur atriði.

a. Samningsskilmálar þessir og samningar sem gerðir eru á grundvelli þeirra á milli Netgíró og viðskiptavinar eru tæmandi lýsing á samningssambandi aðila, réttindum þeirra og skyldum og ganga framar fyrri skuldbindingum. Ef ákvæði samningsskilmála eða samnings verður metið andstætt lögum skal það ákvæði teljast ógilt en önnur ákvæði skulu að öðru leyti standa óbreytt og halda áfram gildi sínu milli Netgíró og viðskiptavinar.

b. Viðskiptavinum er óheimilt að framselja réttindi sín eða skyldur samkvæmt skilmálum þessum eða samningum þriðja aðila nema með fyrirfram fengnu skriflegu samþykki Netgíró.

c. Netgíró er heimilt að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt skilmálum þessum eða samningum aðila, í heild eða að hluta, til þriðja aðila án samþykkis viðskiptavina.

d. Skilmálar þessir eru með fyrirvara um ákvarðanir stjórnvalda, styrjalda, kjarnorkuslysa eða atriða sem talin verða falla undir “force majeure” tilvik þannig að aðilum verði ómögulegt að efna skilmála þessa og samninga aðila. Í þeim tilvikum getur Netgíró að undangenginni tilkynningu til viðskiptavinar gjaldfellt reikning með 10 daga fyrirvara. Þá eru aðilar einnig sammála um að ákveði yfirvöld, t.d. skattayfirvöld, að leggja á skatta, gjöld eða álögur á viðskipti sem samningsskilmálar þessir taka til, skuldbindur viðskiptavinur sig til að greiða slíkt beint til viðkomandi yfirvalda að skaðlausu fyrir Netgíró.

e. Netgíró ber ekki ábyrgð á tjóni, beinu eða óbeinu, sem kann að orsakast af vanefndum eða öðrum misgjörðum innlánsstofnana, þ.e. banka og/eða sparisjóða sem viðskiptavinir eru í viðskiptum við.

f. Netgíró ber ekki ábyrgð á tjóni, beinu eða óbeinu, sem kann að orsakast af tæknilegum bilunum eða villum í hugbúnaði, stýrikerfum, netkerfum, fjarskiptakerfum, rofi eða truflunum í slíkum kerfum, rafmagnsleysi, bilunum og truflunum í tækjum og vélbúnaði hvort sem slíkur búnaður er í eigu Netgíró eða notaður af Netgíró eða af hálfu annarra. Viðskiptavinur getur ekki krafið Netgíró um bætur vegna tjóns, beins eða óbeins, vegna sambandsleysis, rofa á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í stöðvum eða annarra ástæðna, sbr. 40. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Ef þau tilvik sem ofan greinir koma í veg fyrir að Netgíró geti staðið við samningsskyldur sínar við viðskiptavin sinn, í heild eða að hluta, frestast skylda Netgíró þar til framangreindu ástandi léttir og hægt er að framkvæma þær. Ef framangreint ástand leiðir til þess að ekki er hægt að inna af hendi greiðslur eða taka við greiðslum í samræmi við samningsskyldur, skulu hvorki viðskiptavinur né Netgíró þurfa að greiða vexti vegna þess að greiðslur frestast.

g. Netgíró ber ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að valda.

16. Ágreiningur og lögsaga

a. Viðskiptavinur skal beina öllum ábendingum beint til þjónustuvers Netgíró.

b. Aðilar eru sammála um að reyna að jafna ágreining sem kann að rísa í tengslum við efni samnings, efndir hans eða annað, sín á milli. Takist það ekki eru aðilar sammála um að leggja þann ágreining fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Um samning aðila gilda íslensk lög.

c. Kröfumál gegn viðskiptavini má reka gegn honum í því landi þar sem hann telst hafa fasta búsetu hverju sinni, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili.

17. Gildistaka

Skilmálar þessir gilda frá 11.nóvember 2015.
Netgíró ehf.

Fylgstu með okkur

facebook-icon twitter-icon

Opnunartími:

Virkir dagar: 09:00-17:00
Helgar: Lokað

© 2017 Netgíró hf. -  Kt: 6812122050 | Borgartúni 27, 105 Reykjavík | Sími: 4 300 330 | netgiro@netgiro.is