Bestu viðskiptavinirnir eru þeir sem versla oft við þig. En hvernig er best að fá þá til þess? Því þessir viðskiptavinir eru þeir allra bestu. 

Eitt af því sem kaupmaðurinn á horninu hefur fram yfir vefverslanir eru þessi persónulegu tengsl sem hann getur myndað við viðskiptavini. Dag eftir dag heimsækir sama fólkið hann og alltaf heilsar hann þeim með nafni, mælir með einhverju sem hann telur að viðkomandi muni líka og spyr jafnvel út í líðan fjölskyldumeðlima.

Það er erfitt og nær óhugsandi að mynda slík tengsl eða sýna slíka vináttu í vefverslunum. En hvernig er þá hægt að byggja upp traust viðskiptasamband við viðskiptavini, þannig að þeir snúa aftur og aftur til að versla í vefversluninni þinni?

En þú getur með einföldum hætti byggt upp gott samband við viðskiptavini, þannig að þeim líði eins og þeir séu að heimsækja kaupmanninn á horninu. Hér eru nokkrar góðar aðferðir sem nokkrar íslenskar vefverslanir nota.

Heilsaðu viðskiptavininum

Rannsóknir hafa sýnt að um 80% viðskiptavina vilja að þeim sé heilsað vinalega þegar þeir heimsækja verslun. Hvers vegna ætti eitthvað annað að gilda þegar viðskiptavinir heimsækja vefverslun?

Margar vefverslanir notast þannig við ólíkar aðferðir við að heilsa viðskiptavinum sínum, hvort sem um nýja viðskiptavini eða viðskiptavini sem hafa verslað áður er að ræða.

Elko.is leysir þetta mjög skemmtilega, þar er viðskiptavinurinn ávarpaður og á sama tíma er athygli hans dregin að besta hjálpartækinu á síðunni, leitarvélinni.

Sama og síðast

Mjög mörgum notendum finnst gott að geta raðað vörum í körfu og ákveða síðar hvaða vörur skuli keyptar. Sú virkni að geta geymt vörur í körfu getur þannig aukið kauphlutfall endurkomu gesta umtalsvert. Í dag bjóða langflestar vefverslanir upp slíka virkni, en þó ekki allar.

Fyrir vefverslanir þar sem notendur snúa aftur og aftur, til að kaupa sömu vörurnar, er gott að hafa virkni eins og Heimkaup.is býður upp, þ.e. að viðskiptavinir geti kallað fram fyrri pöntun og endurtekið hana, jafnvel með smávægilegum breytingum. Þetta flýtir mjög fyrir og ýtir þannig undir að viðskiptavinir snúi aftur og aftur.

Gott efni

Það er gömul saga og ný, að gott efni sé þyngdar sinnar virði í gulli. Viðskiptavinir og notendur koma aftur til að sjá og lesa nýtt og fræðandi efni, hvort sem það er í formi nýs myndbands, nýrrar bloggfærslu eða myndasýningar. Með því að uppfæra vefsíðuna reglulega og bæta inn nýju efni, eykurðu líkur á að viðskiptavinir snúi aftur.

Í raun mætti líkja þessu við að kaupmaðurinn á horninu ræddi reglulega við viðskiptavini sína og fræddi þá um kosti nýrra vara eða notagildi eldri vara, um hvernig best væri að elda þetta eða hitt, hvaða sósa hentaði best með svona mat o.s.frv.

En það sem skiptir þó mestu máli er samhengi. Stundum er sagt á ensku: Content is king! Samhengi efnis og þarfar viðskiptavinarins er þá konungsríkið. Kaupmaðurinn á horninu sagði ekki öllum frá sömu vörunni, heldur tók mið af þörfum hvers og eins.

Gaeludyr.is gerir þetta ágætlega og er með áhugaverðar og fræðandi greinar um dýrahald, bæði á ensku og íslensku.

Markpóstur

Það er ekki tilviljun að margar vefverslanir notist mikið við markpóst, enda er það ein öflugasta leiðin í dag til að fá viðskiptavini til að snúa aftur og versla meira.

Þannig getur póstlistinn þinn verið eitt allra öflugasta markaðstólið sem þú átt. Þó er gott að hafa í huga að með markpóstinn gildir það sama og annað efni, það verður að vera í samhengi við þarfir og kauphegðun viðskiptavinarins.

Þá eru margar vefverslanir sem senda út sjálfvirka pósta til að minna notendur á vörur í körfu. Slík tækni hjálpar og ýtir undir að notendur klári kaup.

Auðveld kaup

Það atriði sem flestir notendur nefna þó, þegar kemur að endurkomum, er hve auðvelt var að versla við viðkomandi vefverslun og greiðsluferlið. Kannski er það ekki skrítið. Margir forðast jú að fara í verslanir þar sem afgreiðsla á kassa er hæg eða léleg. Af hverju ætti ekki það sama að gilda í vefverslunum?

Með því að bjóða upp á fjölbreyttar og óhefðbundnar greiðsluleiðir, eins og Netgíró, eykur þú þannig ekki bara líkur á að því að notendur snúi aftur og versli meira. Þú getur einnig hækkað kauphlutfallið á síðunni, enda vilja viðskiptavinir hafa þetta val.

Fjölmargar íslenskar vefverslanir bjóða upp á Netgíró og bjóða þannig tugþúsunda Íslendinga að val um með hvaða hætti þeir vilja greiða fyrir vörur og þjónustu.

Ánægðir viðskiptavinir snúa aftur

Það er engum ofsögum sagt, að ánægðir viðskiptavinir snúa aftur. Við þurfum hins vegar að leggja okkur fram um að gera þá ánægða. Það að þekkja þarfir viðskiptavina er afar hjálplegt sem og að finna lausnir sem einfalda þeim að versla við þig.

Þú hefur þannig öll tromp á hendi.