Umsagnir viðskiptavina auka sölu í vefverslunum, á því leikur enginn vafi. Ef þú hefur ennþá ekki nýtt þér þessa frábæru leið til að auka sölu, hugleiddu þá eftirfarandi: Umsagnir hafa ótrúlega áhrif á kauphegðun notenda. Samkvæmt gögnum okkar þá seljast vörur sem eru með sæmilegar umsagnir, jafnvel slæmar umsagnir, betur en vörur með engar umsagnir.

Þessu hélt Mattias Nahlin fram, en hann er markaðstjóri fyrirtækisins Pierce sem á og rekur margar vefverslanir fyrir jaðarsport og selja til 17 landa í Evrópu. 

Margar þessara vefverslana, m.a. 24MX, hafa vaxið hratt undanfarin ár og hefur 24MX þrefaldað veltu sína á undanförnum þremur árum og þar vega umsagnir viðskiptavina þungt. 

Ef þú vilt ná góðum vexti í sölu þarftu að bjóða notendum að skilja eftir umsagnir

Það leikur enginn vafi á að umsagnir eru nauðsynlegar og meginstoð þess að ná vexti í sölu, um það vitna fjölmargar notendarannsóknir, t.d. komst Spiegel Research Center að þeirri niðurstöðu í rannsókn árið 2017 að umsagnir notenda geta hækkað kauphlutfall um allt að 270%. Í sömu rannsókn kom í ljós að 95% notenda lesa umsagnir annarra notenda áður en kaup fara fram. 

Af því má álykta, að ef þú leyfir ekki umsagnir í vefverslun þinni þá verðurðu af miklum tekjum. Eins og sjá má í niðurstöðum þessarar rannsóknar sem unnin var af markaðsstofunni Fan and Funnel, þá segjast 35% neytenda þá vera ólíklegri til að kaupa vöru ef það má hvergi finna umsagnir annarra notenda um hana. 

Umsagnir notenda auka þannig sölu. En, ef þær eru útfærðar rétt, þá hafa þær einnig jákvæð áhrif á leitarvélabestun og bæta upplifun notenda af vefversluninni þinni. 

Trixið við að fá notendur til að skilja eftir umsagnir

 Við Íslendingar erum einstaklega löt þjóð við að skilja eftir umsagnir um vörur og þjónustur á netinu, nema náttúrulega að okkur blöskri svo að við finnum okkur knúin til að tjá okkur. En hvernig er best að fá notendur til að skilja eftir umsagnir og einkum umsagnir sem leiða til meiri sölu?

Ein öflugasta leiðin til þess er í gegnum tölvupóst, þ.e. eftir að staðfest er að viðskiptavinurinn hefur móttekið vöruna fær viðkomandi póst þar sem óskað er eftir umsögn. Það hefur sýnt sig að þetta er langöflugasta leiðin við að fá notendur til að skilja eftir umsögn. Samkvæmt umsagnatólinu Power Reviews þá koma allt að 80% allra umsagna á netinu í gegnum slíka tölvupósta. 

Til eru fjölmörg tól og forrit sem auðvelda þér að safna umsögnum og er alveg óhætt að mæla með því að skoðuð sé slík tækni, til að einfalda þér lífið. 

Að gera umsagnir að marktækum gögnum

Umsagnir notenda eru ekki bara sölutól, heldur fela í sér upplýsingar og gögn sem geta nýst til vaxtar, vöruþróunar og betrumbóta á vöru og þjónustu. Þannig er hægt að nýta þær í markaðslegum tilgangi, svo sem útbúa auglýsingar á Google sem fela í sér umsagnir. 

Upplýsingarnar sem felast í umsögnum geta þannig orðið að uppspretta nýrra hugmynda, sem leiða til enn meiri vaxtar. Fjölmörg fyrirtæki nýta sér umsagnir með þessum hætti, t.d. gæti ferðaþjónustufyrirtæki nýtt sér umsagnir til að meta gæði áfangastaða eða gistingar, öðlast þannig sýn á hvað það er sem hentar viðskiptavininum best og aukið ánægju hans.

Umsagnir notenda gera okkur þannig kleift að vera enn notendamiðaðri en áður, þar sem við fáum aðgang að ómetanlegum gögnum um upplifun notenda af vörum okkar og þjónustu. Það, ásamt því sem við vitum um áhrif þeirra á kauphegðun notenda, gera umsagnir lífsnauðsynlegar fyrir allar vefverslanir.