Viltu bæta söluna á netinu? Það eru ýmsar leiðir til þess og hér má finna lista með 20 atriðum sem geta hjálpað þér að ná enn meiri árangri, atriði sem við höfum séð skila árangri hjá stærstu vefverslunum landsins. 

Framboð og eftirspurn

Gangtu úr skugga um að eftirspurn sé eftir vörunum þínum og þú sért að miða markaðssókn þína á réttan hóp. Þetta er í raun algjör grunnforsenda fyrir því að ná árangri, en oft vill það hreinlega gleymast. Ef þú ert að selja hamborgara, þá er ósköp lítið sem þú getur gert ef enginn er svangur, ef svo mætti að orði komast. Því betur sem þú miðar markaðssókn þína á þann hóp þar sem eftirspurn er eftir vörunum þínum, því betur gengur þér að selja. 

Vörulýsingar og myndir

Mjög margir einstaklingar sjá sig fyrir sér með vörur áður en kaup fara fram, því er mikilvægt að tryggja að vörulýsingar séu góðar og tryggi að tilvonandi viðskiptavinir sjái gæði í því að eignast vöruna, að hún bæti líf þeirra. Hið sama gildir um myndir, góðar vörumyndir eru mjög mikilvægar og gott að geta séð vöruna frá ólíkum sjónarhornum. 

Frí heimsending

Eflaust kemur það fáum á óvart, en að bjóða upp á fría heimsendingu hefur alveg ótrúlega jákvæð áhrif á sölu. Margir notendur á netinu eru orðnir svo vanir slíkri þjónustu að þeir hreinlega versla ekki við vefverslanir sem bjóða ekki upp á fría heimsendingu. Þá eru þó nokkrar vefverslanir sem bjóða upp á fría heimsendingu ef verslað er fyrir ákveðna upphæð, eins og t.d. Heimkaup.is, og er það hvati fyrir notendur að versla fyrir hærri upphæðir. 

Skilaréttur

Margir viðskiptavinir geta verið hikandi með kaup og velt fyrir sér hvað kunni að gerast ef þeir eru ekki ánægðir eða sáttir með kaupin. Ef þeir óttast að það kunni að vera vandkvæðum bundið að skila eða skipta, dregur það úr líkunum á að viðkomandi kaupi vöru. Því getur verið sniðugt að vera með upplýsingar um skilarétt skýrar, skilmerkilegar og auðfundnar. 

Óhefðbundnar greiðsluleiðir

Óhefðbundnar greiðsluleiðir, eins og Netgíró, hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum. Notendur vilja hafa val um greiðsluleið og nota þær leiðir sem henta þeim hverju sinni. Með því að bjóða upp á fjölbreyttar og ólíkar greiðsluleiðir, eykur þú líkurnar á að notandi klári kaup.

Verð og virði

Netið í heild sinni er eitt markaðstorg og oft getur verið erfitt að keppa í verði við risastórar vefverslanir á borð við Amazon. Þá getur verið gott að vera með aukið virði í kaupunum, hvort sem það er aukin þjónusta eða meira virði í kaupunum, s.s. eitthvað í kaupbæti, nokkuð sem Amazon og stóru aðilarnir geta ekki alltaf elt eða leikið eftir. 

Tilboð og afslættir

Það er góð ástæða fyrir því að margar vefverslanir nýta hvert tækifæri til að bjóða afslætti og tilboð, söluhvatar sem þessir virka og ekki bara á þær vörur sem eru á tilboði heldur yfir línuna. Oft sjá notendur vöru á afslætti en enda á að kaupa dýrari vöru. 

Kauptu núna – ekki seinna

Oft vilja notendur velta fyrir sér kaupum, stundum svo lengi að þau hreinlega gleymast. Það getur verið sniðugt, að ýta undir ákvörðun, með því því að setja upp aðstæður þar sem notendur þurfa að bregðast við. Margir vefverslanir bjóða þeim sem hætta í greiðsluferlum afslátt ef viðkomandi klára kaup á næstu 24 tímum. Aðrar stilla upp vörum sem aðeins eru til í takmörkuðu magni. Allt er það gert til að ýta undir að ákvörðun um kaup sé tekin fyrr en síðar. 

Þjónustuumsagnir

Alla jafna má skipta umsögnum í tvennt, annars vegar umsögnum um vörur og hins vegar þjónustu. Með því að bjóða notendum að gefa vefverslun þinni og þjónustunni sem þú veitir umsögn auðveldarðu nýjum notendum að taka ákvörðun um kaup. Þeir sjá þá strax hversu góða þjónustu þú veitir og vita að þér sé treystandi. 

Vöruumsagnir

Samkvæmt könnun á vegum Spiegel Research Center, geta vöruumsagnir aukið kaup um allt að 270%. Þá skoða 95% notenda umsagnir á netinu áður en kaup fara fram. Ef þú ert ekki með vöruumsagnir, þá er hugsanlega kominn tími á að endurskoða það. 

Hröð og öflug greiðslugátt

Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að vera með góða, hraða og örugga greiðslugátt. Því ef greiðslugáttin er hæg og virkar óörugg á notendur, eru allar líkur á að þeir hætti við kaup. Greiðslugátt Netgíró er einföld, örugg og afar þægileg. Enn betra, notendur þekkja hana og treysta henni. 

Gestagátt

Eins og kemur fram hér að ofan, þá vilja notendur geta gengið frá kaupum hratt og örugglega. Ef notendur geta aðeins verslað af þér með því að skrá sig inn, með tilheyrandi flakki inn í tölvupósthólfið o.s.frv., þá virkað það oft letjandi á notendur. Þá getur verið sniðugt að bjóða upp á sérstaka gestagátt, þ.e. að notendur geti verslað án þess að skrá sig inn sem notendur og verslað sem gestir. 

Snjalltækjaviðmót greiðslugáttar

Árið 2021 er reiknað með að yfir 70% af veltu vefverslanna komi frá notendum sem versla í snjalltækjum sínum. Það er því gríðarlega mikilvægt að tryggja að vefverslunin birtist rétt í snjalltækjum, og enn mikilvægara að það sé auðvelt að ganga frá greiðslu í gegnum snjalltæki. 

Beint í greiðslugátt

Sumir notenda þinna vilja bara kaupa þessa einu vöru, greiða fyrir hana og yfirgefa síðan vefverslunina. Þá getur verið gott að bjóða upp á möguleika fyrir slíka viðskiptavini að fara beint inn í greiðslugátt, án þess að þurfa opna körfuna fyrst. Það flýtir fyrir og tryggir að þessir notendur fái þjónustu sem hentar þeim. 

A/B próf

Til að tryggja að vefverslunin þín virki sem best getur verið afar gott að A/B prófa hina ýmsu þætti hennar, t.d. liti á hnöppum, framsetningu á verði og greiðslugáttina. Við hjá Netgíró erum sífellt að gera slíkar prófanir á greiðslugáttinni okkar, því við viljum tryggja að það hún sé hvað best úr garði gerð og auðveldi þér að selja meira. 

Skráðir notendur

Eflaust eru margir notendur í vefverslun þinni sem koma aftur og aftur. Það getur verið afar sniðugt og aukið hollustu þeirra ef þeir sjá skilaboð frá þér sem eru sniðin að þeim, t.d. ef viðkomandi er enn með vörur í körfu eða verslaði nýverið af þér og fær skilaboð um að gefa viðkomandi vöru umsögn. 

Geyma stillingar

Það er eitt og mjög gott að láta nýja notendur vita hvaða greiðsluleiðir standa þeim til boða annars vegar og hins vegar hvaða afhendingarmöguleika þú býður upp á. Enn betra er að geta geymt þessar stillingar notenda, þannig að þær þurfi ekki að velja við endurtekin kaup, t.d. að afhendingarmáti eða greiðsluleið sé forvalin þegar notandi snýr aftur til að versla meira. 

Gott markaðsefni

Það er mjög mikilvægt að vera með gott markaðsefni aðgengilegt í vefversluninni. Þetta getur verið allt frá bloggum þar sem þú segir frá hvernig hægt sé að nýta vörurnar sem þú ert að selja til kennslumyndbanda. Efni sem þetta getur verið mjög hvetjandi fyrir notendur og umbreytt þeim í viðskiptavini. Þá er gott að byrja á því að fara hægt í sakirnar og gefa sér góðan tíma í þessa vinnu, því hún mun taka tíma. Reynsla okkar er sú, að hún skilar árangri og aukinni sölu. 

Rödd og persónuleiki vörumerkisins

Það er eitt að vera með tilboð, frábærar vörulýsingar, æðislegar myndir og fría heimsendingu. Það mun bara fleyta þér svo og svo langt. Hins vegar þurfa líka litir, leturgerð og rödd vörumerkisins að ríma saman og upplifun notenda af vörumerkinu jákvæð. Markaðsfræðin leggur mikla áherslu á hugtakið vörumerki og ekki af ástæðulausu, því það er verðmætasta eign þín þegar allt kemur til alls. Traust notenda á vörumerkinu þínu er ómetanlegt og því skiptir gríðarlega miklu máli að tryggja að allt sem þú gerir, allar breytingar og allt markaðsefni sé í takti við vörumerkið. 

Nýir viðskiptavinir

Það getur verið mjög dýrt að ná í nýja viðskiptavini. Því hafa margar vefverslanir brugðið á það ráð að bjóða nýjum viðskiptavinum eitthvað, t.d. afsláttarkjör af fyrstu kaupum, til að auðvelda þeim að taka ákvörðun um kaup. Við manneskjur erum jú dýr vanans og það er okkur alltaf einfaldast að endurtaka fyrri hegðun og versla þar sem við erum kunnug og okkur líður vel. Tilgangurinn með því að bjóða nýjum viðskiptavinum kaupbæti við fyrstu kaup er því leið til að kenna notendum að versla af okkur, sem eykur líkur á að þeir geri það aftur.