Árið 2019 munu 55% af öllum viðskiptum á netinu styðjast við nýjar og óhefðbundnar greiðsluleiðir. Skoðum aðeins nánar hvað felst í nýjum greiðsluleiðum og hvernig framtíðin mun líta út. 

Um leið og nýjungar eru meðteknar af samfélaginu umbreytast þær úr nýjabrumi yfir í það sem kalla má hefðbundið. Þetta gildir jafnt um óhefðbundnar greiðsluleiðir sem og annað, en óhefðbundnar og nýjar greiðsluleiðir, á borð við Netgíró, hafa verið óðum að ryðja sér til rúms á undanförnum árum og þá einkum á netinu og í snjalltækjum. 

Af gögnum má ráða að árið 2019 munu allt að 55% af öllum viðskiptum á netinu og í snjalltækjum styðjast við óhefðbundnar eða nýjar greiðsluleiðir. Þetta stafar af því að notendur eru í síauknum mæli farnir að hallast að vefverslunum sem gera þeim kleift að stýra sjálfir hvaða greiðsluleið þeir nota. Eftir því sem óhefðbundnum greiðsluleiðum fjölgar og verða algengari, mun þróun vefverslana og viðskipta á netinu og í gegnum snjalltæki halda áfram. 

Ef þú rekur vefverslun eða vilt auka við sölu í gegnum netið og snjalltæki, þá vaknar eðlilega sú spurning, hvort að þú sért að mæta öllum þörfum viðskiptavinar þíns, ef þú ert býður þeim ekki upp þessar nýju og óhefðbundnu greiðsluleiðir. Enda er það mjög áleitin spurning, en áður en við svörum henni er ágætt að skoða hvað felst í þessum nýju greiðsluleiðum. 

Hvað er óhefðbundin greiðsluleið?

Óhefðbundnum greiðsluleiðum mætti líkja við jaðartónlistarstefnur. Flestir tónlistarmenn sem starfa innan slíkra stefna ná aðeins hylli örfárra, en þó koma af og til fram einstaklingar sem ná að brjótast í gegn og ná almennri hylli. Hið sama gildir um óhefðbundnar greiðsluleiðir. Það koma reglulega fram nýjar slíkar greiðsluleiðir, sem ýmist falla um sig sjálfar eða ná fótfestu meðal almennings. Þær sem gera það ná oft mikilli dreifingu og eru notaðar af mjög mörgum notendum. 

Hugtakið óhefðbundin greiðsluleið er í raun afar lýsandi. Hinar hefðbundnu leiðir, þ.e. að nota reiðufé eða greiðslukort, hafa verið við lýði býsna lengi en tilkoma netsins og snjalltækja hefur umbylt þessu kerfi. 

Margar vefverslanir styðjast þannig ekki aðeins við eina greiðsluleið heldur bjóða notendum upp á að velja þá leið sem hentar þeim. Það eru til ýmsar óhefðbundnar greiðsluleiðir sem styðjast við nokkrar mismunandi og ólíkar nálganir.

Í fyrsta lagi eru þær greiðsluleiðir sem styðjast við millifærslur. Þá stendur notendum til boða þegar kaup fara fram að millifæra beint af bankareikningi sínum yfir á reikning seljanda, og notar til þess heimabankaþjónustur. Þessi aðferð hefur notið sífellt meiri vinsælda skv. WorldPay Global Payment report og eftir því sem heimabankaþjónustur verða sífellt betri, má alveg gera því í skóna að þessari aðferðarfræði vaxi fiskur um hrygg. 

Önnur þekkt nálgun er stafrænt veski, sem finna má í mörgum snjalltækjum. Þá geta notendur greitt fyrir hluti og þjónustu í gegnum snjalltæki sín. Yfirleitt er um að ræða einhvers konar app sem gerir notanda kleift að tengja greiðslukort sitt við snjalltækið til þess að framkvæma greiðslur. Þessar lausnir eru í örari vexti um þessar mundir en hefðbundin greiðslukort og ryðja brautina fyrir aðrar óhefðbundnar greiðslulausnir, sem fela m.a. í sér lántökur og þess háttar.

Snjalllán, líkt og Netgíró lán, hafa þá verið að ryðja sér til rúms, einkum vegna sveigjanlegra endurgreiðsluskilmála. Þar sem lántakan er hröð og þægileg, hafa snjalllán verið vaxandi. Ólíkt hefðbundnum lánum, þá krefjast snjalllán ekki jafn ítarlegra upplýsingar, sem flýtir mjög fyrir notendum, einkum ef þeir eru að notast við snjalltæki. Með því að hafa aðgang að lánum með fjölda gjalddaga, þá opnast fleiri möguleikar fyrir notendur og þeir geta þá valið að greiða innan þess tímaramma sem hentar þeim.

Þróun óhefðbundinna greiðsluleiða

Sífellt fleiri notendur kjósa að versla á netinu umfram það að fara í verslanir. Viðskipti á netinu hafa blómstrað með tilkomu allra hinna óhefðbundnu greiðsluleiða og vöxturinn er einkum keyrður áfram af sífelldum nýjungum sem auðvelda notendum að eiga viðskipti á netinu og í gegnum snjalltæki. Margar þessara greiðsluleiða er auk þess ekki alltaf einfalt að innleiða í hefðbundnum verslunum. 

Það eru einkum þrjú atriði sem hafa stuðlað að uppgangi óhefðbundinna greiðsluleiða; eftirspurn, þægindi og uppgangur tækninýjunga innan fjármálakerfisins. 

Neytendur í dag eru sífellt að breyta greiðsluvenjum sínum. Þeir vilja ekki láta hefta sig innan hefðbundinna greiðsluleiða enda þurfa þeir þess ekki. Snjalltækin hafa gert það að verkum að óhefðbundnar greiðsluleiðir standa þeim til boða og hafa þær því notið sífellt meiri vinsælda. Auknar kröfur um persónu- og gagnavernd á netinu hafa kennt notendum að vera meðvitaðri um hvaða greiðsluleiðir þeim standa til boða, svo ekki sé nú minnst á kröfur um að skera niður þann tíma sem fer í að fylla út upplýsingasíður víða á netinu. 

Eftir því sem eftirspurnin neytenda eykst því hraðar þarf að svara henni og reyna tæknifyrirtæki að tryggja að tæknin sé þægileg. Sífellt fleiri fyrirtæki sem þróa óhefðbundnar greiðsluleiðir reyna að taka mið af því sem hentar notendum þeirra. Þannig geta notendur, í stað þess að geta einungis valið um að greiða með reiðufé eða kreditkorti, valið nú um óhefðbundnar greiðsluleiðir, snjalllán og fleiri frábæra valkosti. 

Ný greiðslu- og fjármálatækni hefur gert vefverslunum kleift að taka inn óhefðbundnar greiðsluleiðir og bætt þeim við þær greiðsluleiðir sem eru þegar fyrir. Allar lausnir sem einfalda neytendum að taka ákvörðun um kaup eru líklegar til að ná fótfestu meðal vefverslana. Hvorki neytendur eða vefverslunir eiga að þurfa að hafa áhyggjur af gömlum eða hægum hugbúnaði eða nokkru slíku, heldur að lausnir séu þróaðar með þarfir neytenda fyrst og fremst í huga og eru í sífelldri þróun eftir því sem tæknilausnum vindur fram. 

Heimurinn er sífellt að verða stafrænni og hið sama gildir um hvernig neytendur vilja greiða fyrir vörur og þjónustu. Verslun á netinu og í gegnum snjalltæki er í örum vexti, hið sama gildir um óhefðbundnar greiðslulausnir. 

Óhefðbundnar greiðslulausnir víða um heim

Þar sem notkun okkar Íslendinga á kreditkortum er býsna mikil, þá hættir okkur stundum að halda að svo eigi við um allan heiminn. Svo er ekki, því aðeins 17,6% af heimsbyggðinni á eða notar kreditkort. Það eru vissulega mörg kreditkort, en notkun þeirra er afar ólík eftir því hvar í heiminum við erum stödd. 

Með því að bjóða aðeins upp á kreditkort sem greiðsluleið ertu þannig að missa af viðskiptum, einkum þegar um er að ræða alþjóðlegan hóp viðskiptavina. Með því að bjóða upp á fleiri greiðsluleiðir, geturðu náð til þeirra sem ekki nota kreditkort eða kjósa heldur að nota aðrar greiðsluleiðir. 

Á heimsvísu þá eru óhefðbundnar greiðsluleiðir notaðar í um helmingi tilfella. Víða eru notendur langþreyttir á hefðbundinni bankastarfsemi og það er metið að um 3 milljarðar manna eigi ekki hefðbundinn bankareikning. Sami hópur fólk á hins vegar mjög líklega snjalltæki sem gerir þeim kleift að notast við óhefðbundnar greiðsluleiðir. 

Kína er eitt þeirra landa þar sem vefverslarnir og viðskipti í gegnum snjalltæki hafa tröllriðið hinu stafræna hagkerfi. Gögn frá PYMNTS benda til að stafræna hagkerfið í Kína hafi vaxið um 65% milli ára, sem er einkum rakið til tilkomu óhefðbundinna greiðsluleiða. 

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Til að tryggja að þú sért samkeppnishæf á netinu þá þarftu að skera þig úr. Með því að bjóða upp á óhefðbundnar greiðsluleiðir þá nærðu því forskoti. Eftir því sem þessari tækni vindur fram, munu kröfur neytanda til vefverslana um að bjóða upp á slíkar lausnir aukast.

Allar spár um framþróun þessara tæknilausna eru á einu máli um, að þarfir neytanda verði hafðar að leiðarljósi sem og kröfur þeirra um að hafa val. Óhefðbundnar greiðsluleiðir valdefla þannig neytendur og gera þeim kleift að kjósa þá greiðsluleið sem hentar þeim hverju sinni. Liðnir eru þeir dagar þegar kreditkort voru eina leiðin til að greiða fyrir vörur og þjónustu á netinu og afstaða neytanda til óhefðbundinna greiðsluleiða endurspeglar einmitt það. 

Ekki mun líða á löngu þar til að talað verður um óhefðbundnar greiðsluleiðir sem einfaldlega greiðsluleiðir. Svo mikið vitum við að framtíðin muni bera í skauti sér fyrir stafræna hagkerfið og sú breyting mun verða enn meira áberandi, að þarfir neytenda verða hafðar að leiðarljósi í allir þróun, að lausnir séu öruggar, þægilegar, hraðar og hentugar. 

Þannig erum við aftur komin að spurningunni, ertu að mæta þörfum neytenda? Og við gætum jafnvel bætt í og spurt: Hvernig ætlarðu að mæta þörfum neytenda í framtíðinni? Ef svarið felur ekki í sér að einhverju leyti að bjóða upp á óhefðbundnar greiðsluleiðir, er spurning hvort ekki sé ráðlegt að skoða markhópinn betur og hvaða greiðsluleiðir henta honum.