Á undanförnum vikum höfum við tekið eftir að kauphegðun notenda netverslana er með öðrum hætti en áður. Er netverslun að breytast til frambúðar eða er þetta tímabundið ástand?

Á tímum Covid-19 og 2-metra reglunnar er eðlilegt að margir snúi sér að netinu og noti það til að versla vörur og þjónustu. Fyrirtæki sem bjóða upp á góða netverslun hafa mörg hver séð tugprósenta aukningu í sölu í gegnum netið og því eðlilegt að spyrja sig hvort þetta þýði þá að notendur munu eftirleiðis nota netið í ríkari mæli til innkaupa.

Þó eru það ekki einu breytingarnar sem við sjáum á kauphegðun notenda á netinu. Við sjáum í gögnum okkar að notendur eru orðnir mun viðkvæmari fyrir verði en áður, sem helst í hendur við sambærileg gögn frá öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum.

Tilboð á tilboð ofan

Sko, það hafa allir gaman af tilboðum, ekki satt? Við vitum að þau virka, jafnvel þó að notendur kaupi ekki þá vöru sem er á tilboði, þá kalla þau á athygli þeirra.

Við höfum hins vegar tekið eftir að á undanförnum vikum hafa líkurnar á að notendur nýti sér tilboð og afslætti aukist til muna. Enda engin furða. Þegar aðstæður eru eins og þær eru nú, eru meiri líkur en minni að notendur séu orðnir meðvitaðri um verð og haldi þétt um veskið.

Vörur sem eru á tilboði, afslætti eða lækkuðu verði hafa þannig meira aðdráttarafl en áður.

Þá er ekki úr vegi að minna á, að við bjóðum notendum okkar upp á sértæk mánaðartilboð sem unnin eru í samvinnu við söluaðilar okkar. Þau hafa verið að gefa virkilega góða raun og margir nýtt sér þau. Ef þú vilt gera notendum Netgíró tilboð um kaup á vöru eða þjónustu þinni, heyrðu endilega í okkar og saman finnum við leið til að koma þér og netversluninni þinni á framfæri.

Óskalistinn

Annað áhugavert, sem við sjáum í gögnum erlendis frá, er að þær netverslanir sem bjóða notendum að setja vörur á óskalista eru að sjá meiri sölu. Þannig settu notendur allt að þrisvar sinnum fleiri vörur á óskalista sína í mars en í janúar.

Þessir notendur fylgjast síðan með hvenær og hvort verð lækki á þessum vörum, og ef það gerist, eru meiri líkur en minni á að þeir klári kaup.

Meðalvirði kaupa hækkar

Eðli málsins samkvæmt, þá hefur meðalvirði kaupa á netinu hækkað. Það eru bæði fleiri að nýta sér netverslanir og fleiri sem eyða hærri fjárhæðum nú en áður. Þetta sjáum við bæði hérlendis og erlendis.

Það sem er hins vegar áhugavert, er að þessi hækkun virðist ná yfir nær alla vöruflokka. Auðvitað gæti hér verið um skammtímahækkun að ræða og skýringin á þessari breytingu er augljós, en engu að síður áhugavert að sjá, að netverslun blómstrar nú sem aldrei fyrr.

Netverslun að breytast?

Það er alltof snemmt að segja til um hvort að þær breytingar sem við sjáum nú séu varanlegar. Aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

Manneskjan er hins vegar dýr vanans og eflaust munu margir falla aftur í sama gamla farið þegar þetta ástand er gengið yfir, en líklega verða margir sem halda sig áfram við netið.

Um Netgíró

Netgíró er einföld og þægileg greiðslulausn, sem tugþúsundir Íslendinga nota í hverjum mánuði. Við leggjum okkur fram um að bjóða greiðslulausnir sem henta nútíma viðskiptaháttum og viljum að notendur hafi val hverju sinni um með hvaða hætti þeir vilja greiða fyrir vörur og þjónustu.

Við bjóðum notendum okkar og viðskiptavinum frábæra þjónustu og leggjum okkur fram um að hjálpa þér að láta vefverslunina þína vaxa. Heyrðu endilega í okkur ef þú vilt bjóða upp á Netgíró.