Mörg fyrirtæki hafa fundið fyrir töluverðum samdrætti í sölu og tekjumissi. Markaðssetning og Covid-19 er kannski hættuleg blanda fyrir suma, en tækifæri í augum annarra. Hér eru nokkrar hugmyndir að markaðssetningu á tímum kórónavírussins. 

Þetta eru svo sannarlega undarlegir tímar og líklega væri maður að bera í bakkafullan lækinn með því að segja að þeir séu fordæmalausir. Áhrif kórónavírusins á efnahag, kauphegðun og eyðslu neytenda eru gríðarleg. Sumir vöruflokkar seljast eins og heitar lummur (eigum við að ræða um klósettpappír?) á meðan aðrir vöruflokkar hreyfast afar hægt.

Fyrir margar verslanir og vefverslanir er þetta erfiður tími, enda dregið verulega úr veltunni. Margir kjósa þá að draga úr markaðssetningu og reyna að halda öllum kostnaði í lágmarki, enda virðist við fyrstu sýn skynsamlegt.

En þegar betur er að gáð, þá er það ekki endilega það besta sem þú gerir. Í raun er það versta sem þú getur gert, að draga úr allri markaðssetningu og reyna að bíða af þér storminn.

Hugsað til lengri tíma

Nú er tækifæri til að hugsa markaðssetninguna til lengri tíma og tryggja þannig að þegar það óeðlilega ástand sem nú er uppi er liðið hjá, að þú hafir unnið þér inn meiri markaðshlutdeild og aukið virði vörumerkisins.

Það gerir þú með því að hugsa til lengri tíma, en ekki skemmri. Með því að draga úr eða jafnvel hætta allri markaðssetningu, ertu á vissan hátt skjóta þig í fótinn, því þú þarft þá þegar allt er komið í stand að keppa við þá sem nýttu ástandið til að vinna sér í haginn og það getur verið afar erfitt.

Markaðssaðgerðir þurfa þó ekki endilega að kosta mikið, sumar kalla jafnvel aðallega á þína vinnu og eins er gott að eiga hauk í horni, góða vini eins og okkur. Hér eru nokkrar hugmyndir að markaðsaðgerðum sem þú getur framkvæmt án mikils tilkostnaðar.

Skrifa blogg

Þar sem margir sitja heima, ýmist með börnum, í sóttkví eða eru í fjarvinnu, þá skapast oft meiri tími til að lesa og kynna sér vörur og málefni á netinu. Nú er frábær tími til að blogga og skrifa fréttir um vörur og þjónustu (eins og við erum að gera hér), því lesendur eru til staðar.

Ef þú ert ekki með blogg eða fréttasíðu í vefverslun þinni, þá er kannski kominn tími til að breyta því. Þetta er mjög góð leið til að nálgast neytendur og kynna fyrir þeim nýjungar, hvernig best sé að nota eða umgangast vöru og segja frá því sem er á döfinni.

Leitarvélabestun

Flestar vefverslanir eru með framúrskarandi flottum vörum, frábæra framsetningu og notendavæna. Því miður gleymist oft leitarvélabestunin.

Leitarvélar þrífast á texta og því meira sem við getum skrifað um vörur, því auðveldar er fyrir leitarvélar að skilja um hvað viðkomandi vara snýst og hverjum hún hentar. Nú er upplagður tími til að leggjast í vinnu við að skrifa og endurskrifa texta um vörur.

Samfélagsmiðlar

Eflaust er notkun á samfélagsmiðlum í hæstu hæðum um þessar mundir. Þrátt fyrir að hávaðinn sé mikill, þá eiga vörumerki sem vinna vel með notendum sínum og skapa gott efni alltaf greiða leið.

Ekki gleyma að sinna samfélagsmiðlunum, skapa efni og birta myndir. Jákvæð, uppbyggileg skilaboð og kynning á vörum eiga erindi við neytendur á þessum tímum, sem öðrum, og mikilvægt að leggja rækt við að ná til aðdáenda á samfélagsmiðlum.

Markpóstur

Ef þú ert með góðan póstlista, þá er gott að nota hann til að minna á hvers kyns tilboð, fría heimsendingu og aðra kaupbæti sem þú býður upp á þessa daga.

Markpóstur er oft á tíðum vanmetinn, enda er þetta frábært tól til að ná til neytenda, sem nú þegar hafa áhuga á vörum þínum eða hafa verslað við þig.

Tilboð

Margar vefverslanir bjóða upp á ýmis tilboð um þessar mundir og jafnvel fría heimsendingu. Þetta er góð leið til að ná til neytenda og kynna fyrir þeim vörur þínar.

Í hverjum mánuði bjóðum við tugþúsundum notenda Netgíró að nýta sér mánaðartilboð, sem við vinnum með söluaðilum. Heyrðu endilega í okkur ef þú vilt bjóða notendum Netgíró slíkt tilboð.

Markaðssetning og Covid-19

Það er í raun engin ástæða til að leggjast í kör og hætta öllu markaðsstarfi. Markaðssetning þarf að miða fyrst og fremst að langtímamarkmiðum eins og staðan er í dag og þá þarf að sýna klókindi í hvernig markaðssetningin er útfærð.

Við erum, eftir sem áður, reiðubúin að vinna með söluaðilum okkar og bjóðum ávallt fram alla þá aðstoð sem við getum veitt.

Um Netgíró

Netgíró er einföld og þægileg greiðslulausn, sem tugþúsundir Íslendinga nota í hverjum mánuði. Við leggjum okkur fram um að bjóða greiðslulausnir sem henta nútíma viðskiptaháttum og viljum að notendur hafi val hverju sinni um með hvaða hætti þeir vilja greiða fyrir vörur og þjónustu.