Hvenær versla notendur á netinu? Hefurðu einhvern tíma velt því fyrir þér hvaða tíma vikunnar notendur eru hvað virkastir? Við höfum grafið eftir þessum upplýsingum í gögnunum okkar og hér eru niðurstöður okkar. 

Hefurðu einhvern tíma skoðað hvaða tíma vikunnar eða dags notendur eru líklegastir til að versla í vefversluninni þinni? Það getur nefnilega verið ansi gagnlegt að skoða það, þannig þú vitir til dæmis hvenær best er að setja nýjar vörur á netið eða kynna tilboð. Við höfum aðeins grafið í gegnum gögnin okkar og komist að nokkru merkilegu. Notendur okkar eru líklegastir til að versla á sunnudögum og þá fyrir hádegi!

Fjölmargar rannsóknir sýna að kauphegðun almennings er að breytast. Mjög margir notast bæði við netið og verslanir til að skoða vörur og þjónustur, og renna þessir tveir heimar saman, styðja hvern annan og ýta þannig undir sölu. Við sjáum í gögnum okkar að sala á netinu dregst lítillega saman eftir því sem líða tekur á vikuna, á sama tíma og sala í verslunum eykst. Á sunnudögum tekur sala á netinu hins vegar kipp, á sama tíma og flestar verslanir eru lokaðar. 

Þetta sýnir að það eru sterk tengsl á milli hefðbundinnar verslunar og vefverslunar, annað getur stutt við hitt. Þó er mikilvægt að verslanir og vörumerki horfi til kauphegðunar notenda á heildrænan máta og skilji ekki annað frá hinu. Góð vefverslun getur þannig stutt við hefðbundna verslun og ýtt undir heimsóknir viðskiptavina ásamt því að auka veltu í gegnum netið. 

Þannig þarf upplifun notenda af því að eiga í viðskipti við fyrirtæki á netinu eða vefverslanir að kallast á við upplifun þeirra af því að eiga í beinum samskiptum við sömu aðila, t.d. að sömu vörur séu fáanlegar í bæði vefverslun og raunverslun og að upplifun notenda af hvoru tveggja sé fyrst og fremst sniðin að þörfum hvers og eins, s.s. að bjóða upp á sömu greiðsluleiðir í báðum verslunum, og þar kemur Netgíró mjög sterkt inn. 

Kaup í gegnum snjalltæki

Í dag fer litlu meira en helmingur allra kaupa fram í gegnum snjalltæki samkvæmt okkar gögnum. Þar með er þó ekki sagt að það sé endilega sú leið sem notendur eru hvað ánægðastir með, því nýleg rannsókn sem framkvæmd var í Svíþjóð sýndi að aðeins 36% notenda vildu klára kaup í gegnum snjalltæki, á meðan 48% kusu heldur að nota tölvu. Á sama tíma er meðalvirði hverrar færslu í gegnum snjalltæki er rétt um þriðjungi lægra en meðalvirði færslna sem gerðar eru í tölvum. 

Þá sjáum við að snjalltæki eru einkum notuð þegar verslaðar eru vörur sem ekki kalla á ítarlegri skoðun eða rannsóknarvinnu. Þannig eru t.d. hvers konar barnavörur frekar keyptar í gegnum snjalltæki á meðan kaup á raftækjum fara nær eingöngu fram í gegnum tölvur. Dæmi sem þessi sýna okkur, hversu mikill munur getur verið á notendahegðun út frá vöruflokkum og mikilvægt fyrir vefverslanir að besta hönnun og framsetningu út frá hverjum flokki fyrir sig.