Vafi og efi notenda er einn allra versti óvinur vefverslana. Því er mikilvægt að ganga úr skugga um að hvergi leiki nokkur vafi á þeirri þjónustu sem stendur viðskiptavinum til boða. Skýr skilaboð skila árangri. 

Eflaust kannast margir við að horfa á matreiðsluþætti þar sem kokkar nota smá af þessu kryddi og örlítið af hinu. Eða lesa í gegnum matreiðslubækur sem segja manni að taka steikina út úr ofninum þegar hún er komin með „réttan“ lit. Hver er þessi rétti litur? Hvað er smá og hve mikið er örlítið?

Það gildir hið sama um netverslanir og svona uppskriftir. Líkurnar á því að við tökum fram þessar uppskriftir og notum þær, þegar skilaboðin eru jafn óskýr og raun ber vitni, eru ekki ýkja miklar. Ef við gætum ekki að því að skilaboð og framsetning efnis séu rétt, eru meiri líkur en minni á því að notendur kjósi frekar að versla annars staðar.

Skýr skilaboð

Það má til sanns vegar færa, að ef notandi þrái nógu heitt að eignast vöru, þá lætur viðkomandi fátt stöðva sig. En góð netverslun gengur út á meira en að selja hverjum notanda aðeins einu sinni. Við viljum jú að notendur snúi aftur og aftur, til að kaupa meira.

Til þess að svo megi verða, þá þurfum við að ganga úr skugga um að allar upplýsingar um vöruskil, greiðslumáta, stærðir o.s.frv. séu aðgengilegar og auðfinnanlegar í vefversluninni. Það hefur margsýnt sig að gagnsæi sem þetta ýtir undir ánægju viðskiptavina, flýtir fyrir ákvörðun um kaup og hækkar hlutfall endurkoma.

Þannig getur jafn einföld aðgerð og að hafa sýnilegt hjá dýrari vörum að hægt sé að dreifa greiðslum, t.d. með Netgíró, hjálpað notendum að taka ákvörðun um kaup, sem og fækkað innsendum fyrirspurnum um hvort að slíkt standi notendum til boða.

Allt sem efast má um

Um leið og notendur eiga í erfiðleikum með að finna efni á borð við skilmála eða reglur um skilarétt, þá sáirðu fræjum efa um hvort kaup séu góð. Þess vegna er afar mikilvægt að tryggja að allt efni sem ýtir undir jákvæða upplifun notenda af vefversluninni þinni sé sýnilegt og auðfinnanlegt.

Ein góð leið til að skoða hvort eitthvað efni vanti eða þurfi að vera sýnilegra, er að skoða hverjar eru algengustu spurningarnar sem notendur spyrja. Vantar upplýsingar um sendingakostnað? Spyrja þeir um raðgreiðslur? Velta þeir fyrir sér tæknilegum atriðum, stærðum eða litum?

Til dæmis má nefna að margar vefverslanir sýna ekki sendingarmöguleika (og kostnað við þá) fyrr en á greiðslusíðu og hugsanlega gæti það flýtt fyrir og auðveldað notendum að ákveða kaup að sjá þann kostnað (ef hann er einhver) og möguleikana sem þeim standa til boða fyrr, jafnvel á vörusíðu.

Því skýrari sem skilaboðin eru, því meiri líkur eru á að þú náir árangri með vefverslunina þína.

Um Netgíró

Netgíró er einföld og þægileg greiðslulausn, sem tugþúsundir Íslendinga nota í hverjum mánuði. Við leggjum okkur fram um að bjóða greiðslulausnir sem henta nútíma viðskiptaháttum og viljum að notendur hafi val hverju sinni um með hvaða hætti þeir vilja greiða fyrir vörur og þjónustu.

Við bjóðum notendum okkar og viðskiptavinum frábæra þjónustu og leggjum okkur fram um að hjálpa þér að láta netverslunina þína vaxa. Heyrðu endilega í okkur ef þú vilt bjóða upp á Netgíró sem greiðslulausn eða þig vantar einhverja aðstoð við að setja greiðslulausnina upp.