Við erum að sjá töluverðar breytingar á kauphegðun vegna Covid 19. Ekki einungis breytingar milli vöruflokka, heldur einnig hvernig við verslun. Er verslunin þín reiðubúin fyrir þær breytingar?

Það leikur enginn vafi á að undanfarnar vikur hafa verið afar afdrífaríkar, svo ekki sé dýpra í árina tekið. Við höfum séð heilmiklar breytingar á kauphegðun hjá notendum Netgíró og þegar við fórum að kafa ofan í gögnin, þá er ýmislegt sem kemur á óvart og annað sem á sér eðlilegar skýringar.

Ef þú ert ekki með vefverslun…

Vefverslun og kaup í gegnum netið hafa aldrei verið jafn mikið notuð og nú. Eðli málsins samkvæmt, þá hafa neytendur frekar nýtt sér netið til að kaupa vörur, fremur en að fara í verslanir. Það sem er einnig áhugavert að skoða, er að þær vefverslanir sem eru notendavænar, bjóða upp á margar ólíkar greiðsluleiðir og þar sem kaupferlið er hvað einfaldast, eru þær verslanir sem hafa náð árangri.

Við erum að sjá svipuð gögn frá Bandaríkjunum og nágrannalöndum okkar. Netverslun er á miklu flugi, milljónir notenda nýta nú netið til að versla, fremur en að mæta í búðir. Vissulega hafa þær þjóðir sumar hverjar mátt sæta útgöngubanni, en það gildir ekki hérlendis eða í Svíþjóð.

Breytingar innan vöruflokka

Það kemur kannski lítið á óvart, en sala á vörum sem tengjast ferðalögum hefur dregist mikið saman. Hið sama gildir um sölu á miðum vegna hinna ólíku viðburða.

Hins vegar kemur kannski á óvart, að sala á íþróttavörum hefur aukist mikið og þá ekki einungis ketilbjöllum og lyftingalóðum. Hið sama gildir um t.d. íþróttafatnað og hlaupaskó. Þá erum við einnig að sjá aukningu í sölu á hvers kyns vörum er tengjast heimilinu, t.d. húsgögn, málning og þess háttar.

Það sýnir kannski að því meira sem við höfum mátt vera heima, því meira höfum við sinnt þeim verkefnum sem hafa kannski mátt sitja á hakanum undanfarið. Þannig hefur okkur borist til eyrna að t.d. sumir vinsælir litir séu nú illfáanlegir.

Þá hefur sala með matvörur tekið mikinn kipp á netinu, enda hafa flestar stærstu matvöruverslanir landsins nýverið tekið netverslanir með matvörur í gagnið.

Aðrir flokkar sem hafa vaxið eru t.d. garðvörur (sem er að hluta til árstíðabundið), kynlífshjálpartæki og raftæki.

Breytingar á kauphegðun eða svar við breyttum aðstæðum?

Já, þetta er milljón króna spurningin. Erum við að sjá varanlegar breytingar á kauphegðun eða eru neytendur að laga sig að breyttum aðstæðum og munu aftur falla í hið fyrra horf?

Það er skiptar skoðanir um þetta hér innanhúss, rétt og eins meðal þeirra sérfræðinga sem rætt hefur verið við í fjölmiðlum. Eitt sem við höfum skoðað í því samhengi en það er endurkomuhlutfall notenda. Við erum að sjá fjölmarga notendur okkar, sem eru jafnvel að stíga sín fyrstu skref sem netverslunarnotendur, snúa aftur og nota Netgíró aftur og aftur sem greiðsluleið á netinu.

Vissulega erum við manneskjur dýr vanans og þegar við höfum vanið okkur á að gera hlutina með ákveðnum hætti, finnst okkur mörgum þægilegt að endurtaka bara sömu hegðun.

Því er auðvelt að gefa sér, að þeir notendur sem hafa vanið sig á að nota netið til að versla eða nýtt tímann núna á meðan Covid 19 gengur yfir til að læra að versla á netinu, munu gera það að einhverju leyti áfram.

Það verður því sífellt mikilvægara að vera með góða vefverslun þar sem notendur geta valið um ólíkar greiðsluleiðir.

Um Netgíró

Netgíró er einföld og þægileg greiðslulausn, sem tugþúsundir Íslendinga nota í hverjum mánuði. Við leggjum okkur fram um að bjóða greiðslulausnir sem henta nútíma viðskiptaháttum og viljum að notendur hafi val hverju sinni um með hvaða hætti þeir vilja greiða fyrir vörur og þjónustu.

Við bjóðum notendum okkar og viðskiptavinum frábæra þjónustu og leggjum okkur fram um að hjálpa þér að láta vefverslunina þína vaxa. Heyrðu endilega í okkur ef þú vilt bjóða upp á Netgíró.