Það getur reynst ansi mörgum erfitt að besta vefverslunina sína. Slíkt tekur tíma og kallar oft á þó nokkra tækniþekkingu. Hins vegar eru nokkur ráð sem auðvelt er að fylgja, sem geta skilað árangri strax, og þarfnast lítillar tækniþekkingar. Svona útbýrð þú betri vefverslun. 

Allir sem vinna með vefsíður og vefverslanir átta sig á þeim endalausa eltingarleik sem felst í að reyna betrumbæta og besta vefsvæðið. Sífellt koma fram nýjar kröfur og oft getur hreinlega verið erfitt að átta sig á hvað skiptir máli og hvað ekki. Stórfyrirtæki á borð við Google og Facebook eru auk þess mjög stýrandi og því miður er ekki alltaf nægilega gegnsætt hvaða kröfur þau gera hverju sinni.

Það eru hins vegar nokkur atriði sem gott er að hafa í huga og mikilvægt að vera sífellt að finna leiðir til að bæta. Sum þeirra atriða eru augljós og auðvelt að laga, á meðan önnur kalla á að þú sért sífellt að uppfæra, laga og breyta til að ná betri árangri en samkeppnin. Hér er stuttur listi yfir þau atriði sem telja má að séu mikilvæg fyrir bestun vefverslana og kalla ekki á mikla tæknilega þekkingu.

Skrifaðu meiri texta

Eitt vanmetnasta tólið í vopnabúri okkar eru textaskrif. Það að geta skrifað lengri texta, ítarlegri vörulýsingar og tengt þannig fleiri leitarorð við hverja vöru er afar mikilvægt. Mjög margar vefverslanir gefa sér ekki nægilegan tíma til að skrifa góðar lýsingar á vörum og fyrir vikið er oft erfitt fyrir leitarvélar að átta sig hvenær og hvar er hægt að tengja vörur við leitir notenda.

Textinn er þannig algjör grunnforsenda fyrir góðri leitarvélabestun. Jafnvel þó þú hafir ekki mikla þekkingu á leitarvélabestun, þá geturðu náð ágætum árangri einfaldlega með því að skrifa að minnsta kosti 300 orð um hverja vöru.

Notaðu millifyrirsagnir

Úr því við erum byrjuð að skrifa meiri texta, þá er líka sniðugt að skoða hvernig við setjum texta upp. Það er því gott að hafa í huga að brjóta upp texta með millifyrirsögnum, þá einkum heading 2 eða heading 3. Ekki er mælt með því að nota heading 1 oftar en einu sinni á síðu og undantekningalítið er titill síðu settur inn sem heading 1. Ástæða þess við notum millifyrirsagnir er til að auðvelda notendum og leitarvélum að átta sig á hvað er mikilvægast á viðkomandi síðu.

Þá er gott að leiða huga að því hvaða orð séu hverri vöru mikilvægust. Hægt er að fara í leitarorðagreiningu en þú getur líka notað hyggjuvitið, því stundum er nóg að setja vöruflokk, vöruheiti eða vörumerki í millifyrirsögn.

Merktu myndir með lýsandi heitum

Eru allar myndirnar í myndabankanum þínum merktar vörunúmerum? Þegar þú setur myndirnar á netið hins vegar er bráðsniðugt að breyta heiti og lýsingu myndar þannig að hvoru tveggja sé lýsandi fyrir það sem er á myndinni. Í stað þess að myndin heiti t.d. S143276.jpg þá gefurðu myndinni heiti, t.d. Samsung A50 snjallsími.

Ástæða þess við mælum með þessu er afar einföld. Leitarvélar skilja heiti og lýsingu myndar rétt eins og annan texta og birta því myndir í niðurstöðum sem passa við leitir notenda. Það eru afar fáir notendur sem leita eftir einkvæmum vörunúmerum fyrirtækja en margir sem leita eftir ýmist vöruflokkum eða vörumerkjum, s.s. snjallsími eða Samsung.

Uppröðun vara

Það getur skipt miklu máli hvernig við látum vörur birtast á vöruflokkasíðum og forsíðu vefverslunar. Ertu að birta vörur eftir því hvenær þær voru settar inn í vefverslunarkerfið? Birtirðu vörur eftir sölu? Eða birtirðu vörur eftir því hvaða vara er skoðuð oftast?

Langflest vefverslunarkerfi bjóða þér að velja um slíka birtingarmöguleika og jafnvel að þú getir hreinlega valið í hvaða röð vörur eiga að birtast. Það sem skiptir þó höfuðmáli hér er, að þú prófir þig áfram með hvað virkar best fyrir notendurna þína, því uppröðun vara getur haft mjög mikil áhrif á hversu mikil sala er í vefversluninni þinni.

Reyndu að fá notendur til að dvelja lengur

Þetta kann að hljóma pínu skrítið, en því lengur sem notendur dvelja á vefnum þínum, því betur líkar Google við þig. Dvalartími er einn af þeim þáttum sem Google skoðar þegar leitarvélin beinir notendum til þín. Með því að skrifa meiri texta, birta myndbönd og fá notendur til að skoða vörur og vefsíður lengur, þá hefur þú áhrif á hvernig Google raðar vefversluninni þinni upp í leitarniðurstöðum.

áhrif dvalartíma á leitarniðurstöður á google

Einfalt frekar en flókið

Mörgum hættir til að flækja um of vefverslanirnar sínar, þannig að notendum getur hreinlega reynst erfitt að finna vörur. Auðvitað getur góð og auðfundin leitarvél breytt miklu, en að stilla upp slíkri leitarvél á síðu kallar oft á mikla tæknilega þekkingu. Þú getur hins vegar hjálpað notendum með því að tryggja að veftréð sé einfalt og vöruflokkaheiti séu lýsandi.

Oft getur þannig verið gott að setja sig í spor notandans og velta fyrir sér hvaða vöruheitum og vöruflokkum hann kunni að leita eftir. Þannig getur sá orðaforði sem við notumst við í vinnunni á engan hátt endurspeglað þau orð eða heiti sem notendur nota. Hér gildir því að hafa heiti einföld, skýr og gagnsæ. Þá verður líklegra að notandi finni vöru frekar en ef við erum með lítt notuð eða mjög bransakennd heiti á flokkum.

Óhefðbundnar greiðsluleiðir

Ein öflugasta leiðin til að bæta vefverslun er að bjóða notendum upp á að velja um ólíkar óhefðbundnar greiðsluleiðir. Notendur vilja geta kosið þá greiðsluleið sem hentar þeim best hverju sinni og oft bjóða óhefðbundnar greiðsluleiðir, eins og Netgíró, upp á nýjar og fjölbreyttar leiðir til að borga fyrir vöru.

Þú getur, án mikillar tæknilegrar þekkingar, innleitt slíkar greiðsluleiðir og auðveldað þannig notendum að taka ákvörðun um kaup.