Margar netverslanir eru virkilega vel úr garði gerðar. Þó eru nokkur atriði sem oft misfarast hjá mörgum. Hér eru nokkur algeng mistök sem gott er að forðast og einhver vannýtt tækifæri. 

Á sumrin gefst okkur oft tækifæri til að skoða verkefni sem alla jafna fá að sitja á hakanum þegar meira er að gera. Rétt eins og með almenna verslun þá hægir netverslun oft á sér á sumrin í mörgum vöruflokkum og því er gráupplagt að skoða aðeins það sem betur má fara, laga og bæta. Þá gefst einnig tími til að líta til þeirra atriða sem kalla má vannýtt og eru jafnvel tækifæri til frekari vaxtar.

Einkvæm vöruheiti

Stundum getur verið afar erfitt að finna góð vöruheiti, sérstaklega þegar við erum með margar vörur af svipuðum toga. Við verðum samt að reyna að tryggja að hver vara eigi sér einkvæmt heiti. Það er þannig ekki nóg að nefna vöru Silfurhálsmen í netversluninni, ef þú ert með 30 aðrar vörur sem bera sama vöruheiti. Bæði gerir það notendum erfitt fyrir, t.d. við að leita að vöru sem þeir fundu áður, sem og eiga leitarvélar erfitt með að átta sig á hvenær sé best að birta hverja vöru.

Hér gæti einhverjum dottið í hug að setja vörunúmer við vöruheitið, en þó að slíkt hjálpi okkur sem þekkjum vörunúmerin, þá gerir slíkt lítið fyrir notendur. Við þurfum því að útbúa einkvæm og lýsandi vöruheiti. Silfurhálsmen gæti þannig verið Silfurhálsmen með bleikum steini, Acta Silfurhálsmen eða Silfurhálsmen með krossi.

Einkvæm vöruheiti sem birtast undir H1 html merki á vörusíðu styðja við leitarvélabestun og hjálpa einnig notendum að finna vöruna aftur.

Vörulýsing

Önnur algeng mistök felast í lengd vörulýsingar. Það er mikill misskilningur að halda að notendur vilji ekki ítarlegar og góðar vörulýsingar. Rannsóknir hafa einmitt sýnt, að þær netverslanir þar sem finna má ítarlegar vörulýsingar selja frekar en þær sem gefa þessu atriði minni gaum.

Þannig nýta margar helstu vefverslanir landsins þann möguleika að birta bæði stutta og langa vörulýsingu. Stutt vörulýsing inniheldur oft allra helstu upplýsingar, á meðan langa vörulýsingin fer yfir helstu kosti, tæknilegar útlistanir og aðrar áhugaverðar upplýsingar fyrir notendur.

Í raun mætti segja, að því meira einkvæmt efni sem er að finna á vörusíðunni því betra. Bæði auðveldar það notendum að átta sig á gæðum vörunnar, en það hjálpar einnig leitarvélum að átta sig á um hvað síðan snýst og ákvarða þannig hvenær er best að birta viðkomandi síðu í leitum notenda.

Greiðsluleiðir

Alltof oft sjáum við vefverslanir sem aðeins bjóða upp á eina greiðsluleið. Það hefur margsýnt sig að því fleiri leiðir sem notendur hafa til að greiða fyrir vöru eða þjónustu, því líklegra er að þeir gangi í kaup. Þannig mætti segja að með því að bjóða upp á greiðsluleiðir á borð við Netgíró þá eru allar líkur á að kauphlutfall notenda hækki.

Ef þig vantar aðstoð við að setja upp Netgíró, heyrðu endilega í okkur. Við erum boðin og búin til að hjálpa þér.

Blogg og fréttir

„Það les enginn blogg lengur! Af hverju ætti einhver að lesa fréttirnar okkar?“ Líklega eru fá tækifæri jafn vannýtt af netverslunum hérlendis og blogg eða fréttafærslur. Erlendis eru helstu vefverslanir afar duglegar við að blogga eða setja inn fréttir um nýjar vörur, hvernig hægt er að nota vörur, hvaða eiginleikum maður ætti að leita eftir og svo mætti lengi telja.

Notendur eru áhugasamir um vörur og vilja sjá og kynnast því hvernig hægt er að nota þær. Fæst okkar lesum langa og ítarlega leiðbeiningarbæklinga, en allt efni sem auðveldar okkur að skilja notagildi vöru er gott og hjálpar okkur að taka ákvörðun um kaup. Það kostar ekki mikinn pening að taka upp stutt leiðbeiningarmyndband um hvernig best sé að þrífa silfurhálsmen ef maður hefur gleymt að taka það af sér áður en maður stakk sér ofan í heita laug.

Svona einföld atriði, eins og leiðbeiningar um hvernig má ná silfruðum lit aftur á silfurskart, eru vel liðin af notendum og þeir muna þá frekar eftir þér, næst þegar þeir ákveða kaup. Efnismarkaðssetning sem þessi er eitt af vannýttu tækifærunum á netinu í dag.

Markpóstur

Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um markpóst og mikilvægi hans við markaðssetningu. Það er vissulega rétt, að markpóstur er mikilvægur, en það er ekki sama hvernig þetta er gert. Tölvupóstur sem sendur er út á allan póstlistann til að auglýsa eina vöru gæti vissulega aukið sölu til skamms tíma, en hugsanlega á kostnað þess að missa marga af listanum.

Það getur verið sniðugt að reyna finna leiðir til að skipta póstlistanum upp í minni hópa, t.d. út frá búsetu, áhugasviði, kyni eða kauphegðun. Til að mynda er sniðugt að senda póst með tilboðskóða á hóp notenda sem hefur ekki verslað neitt á undanförnum 6 mánuðum, til að virkja þá á ný, en það er óþarfi að senda slíkt á þá sem eru þegar virkir. Þeir gætu hins vegar viljað fá upplýsingar um væntanlegar vörur, jafnvel fá tækifæri til að forpanta vöruna.

Að vinna með póstlistann og markpóst með þessum hætti er eitt af vannýttu tækifærunum í netverslun hérlendis.

Um Netgíró

Netgíró er einföld og þægileg greiðslulausn, sem tugþúsundir Íslendinga nota í hverjum mánuði. Við leggjum okkur fram um að bjóða greiðslulausnir sem henta nútíma viðskiptaháttum og viljum að notendur hafi val hverju sinni um með hvaða hætti þeir vilja greiða fyrir vörur og þjónustu.

Við bjóðum notendum okkar og viðskiptavinum frábæra þjónustu og leggjum okkur fram um að hjálpa þér að láta netverslunina þína vaxa. Heyrðu endilega í okkur ef þú vilt bjóða upp á Netgíró sem greiðslulausn eða þig vantar einhverja aðstoð við að setja greiðslulausnina upp.