Það kostar blóð, svita og tár að koma góðri vefverslun á laggirnar, að ógleymdum öllum tíma og kostnaði sem fellur til. Enda er ekki heiglum hent að opna vefverslun, en það getur líka verið mjög skemmtilegt og spennandi. Hér eru nokkur góð ráð. 

Það er fátt skemmtilegra en að takast á við ný og spennandi verkefni. Að opna vefverslun er stór ákvörðun, enda mikið verkefni, ef vel á að takast. Það þarf að huga að ýmsu og jafnvel reyndustu vefstjórar geta lent í vandræðum, enda margar hraðahindranir á leiðinni. Þá er til svo mikill aragrúi af bloggum og leiðarvísum á netinu, sem þó virðast ekki sammála um neitt, að það getur hreinlega ruglað mann í ríminu. Eins er sífellt verið að breyta öllu, kröfur um leitarvélabestun, hönnun og útlit breytast dag frá degi, að manni virðist, þannig að maður er í stöðugri endurmenntun.

Það þýðir samt lítið að örvænta. Þrátt fyrir allt þá eru góðu fréttirnar þær að það er auðvelt að finna góð ráð og hjálp á netinu, sem flýtt geta mjög fyrir því að maður nái að opna vefverslunina og að hún fari að skila árangri. Við höfum tekið saman nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar þú leggur upp í þessa vegferð.

Að velja vefumsjónarkerfi

Það eru mörg afar áhugaverð og öflug vefumsjónarkerfi í boði. Þau eru hins vegar misgóð eins og þau eru mörg og hafa öll sína kosti og galla. Því er mikilvægt að skoða vandlega kerfin áður en lagt er af stað og vega kosti þeirra og galla.

Þá getur einnig verið sniðugt að skoða kostnaðinn sem fylgir hverju kerfi fyrir sig. Oft þarf nefnilega að greiða leyfisgjöld fyrir kerfin en það er þó alls ekki algilt, enda eru til fjölmörg frábær kerfi sem er ókeypis að setja upp, svo sem WordPress, en það vefumsjónarkerfi er eitt vinsælasta kerfið í dag. Það hefur vissulega sína kosti og galla, rétt eins og öll önnur kerfi, en vinsældir kerfisins og hve auðvelt er að nota það segir sína sögu.

WordPress er með vefverslunarviðbót sem heitir Woocommerce og þykir hún býsna góð. Þá bjóðum við einnig upp á litla viðbót fyrir Woocommerce sem einfaldar mjög alla uppsetningu á greiðslugátt og þannig getur þú boðið notendum þínum upp á óhefðbundnar greiðsluleiðir, án þess að hafa mikið fyrir því.

Þá getur líka verið sniðugt að skoða vefverslunarkerfið út frá því hversu vel það getur tengst lager- og/eða bókhaldskerfinu þínu, ef þú ert á annað borð með slíkt. Það getur flýtt mjög fyrir að geta lesið vörur á milli kerfa, þannig að ekki þurfi að setja þær upp á ný í vefumsjónarkerfinu, sem og gott að geta látið pantanir fljóta beint inn í bókhaldskerfið. Vefumsjónarkerfi eru misgóð í þessu og oft fellur til mikill kostnaður við að setja upp lausnir á þessu.

Greiðsluleiðir

Þegar þú hefur ákveðið hvaða vefumsjónarkerfi hentar þér best er gott að byrja strax að huga að því hvaða greiðsluleiðir þurfa að vera í boði fyrir notendur. Í dag vilja notendur hafa val, að geta stýrt sjálfir hvaða greiðsluleið þeir notast við hverju sinni. Þannig mælum við alltaf með því að notendum sé boðið upp á bæði hefðbundnar greiðsluleiðir, t.d. að geta greitt með greiðslukorti, sem og óhefðbundnar greiðsluleiðir, eins og Netgíró.

Það hefur sýnt sig, að ef notandi hefur val um greiðsluleið eru meiri líkur á að hann taki ákvörðun um kaup. Með því að bjóða upp á Netgíró ásamt annari hefðbundinni greiðsluleið þá eru meiri líkur á að notendur kaupi hjá þér og veltan sé þannig hærri.

Snjallsímaútgáfa

Eins undarlega og það kann að hljóma, þá gleymist oft að setja upp, hanna og besta snjallsímaútgáfur fyrir vefi og vefverslanir. Í dag er meira en helmingur allrar vefumferðar í gegnum snjalltæki og hefur sala í gegnum snjalltæki aukist ár frá ári. Reyndar, svo því sé haldið til haga, þá fara enn fleiri kaup fram í gegnum tölvur, en bilið á milli þessara tveggja tegunda tækja minnkar ört.

Auk þess benda vefgreiningargögn til þess að margir notendur noti snjalltæki til að skoða vöru og velta henni fyrir sér, en ljúki við kaup í tölvum.

Því er mikilvægt að tryggja að snjallsímaútgáfa vefverslunar þinnar sé vel úr garði gerð og þá einkum að birting vara sé með besta móti, þ.e. að auðvelt sér að skoða myndir og lesa texta, sem og að notendur eigi ekki erfitt með að leita að og finna vörur.

Markpóstur

Markpóstur er ein öflugasta leið til markaðssetningar sem þú hefur. Því er gott að byrja strax á fyrsta degi að safna notendum á póstlista og senda reglulega áminningar og tilboð á viðskiptavini, hvort heldur sem er í rafrænu formi eða útprentuðu. Fjölmörg fyrirtæki hafa náð miklum árangri með því að nýta sér þessa markaðsleið, t.d. Heimkaup og Elko.

Tölvupóstur er hins vegar nokkuð ódýrari leið en að láta prenta bæklinga og bera út. Með því að notast við tölvupóstkerfi á borð við Mailchimp getur þú auðveldlega skipt viðskiptavinum þínum í markhópa og jafnvel sett upp sjálfvirkar tölvupóstsendingar, þannig að viðskiptavinir þínir fái skilaboð við hæfi hverju sinni. Það kallar hins vegar á nokkra vinnu og skipulagningu, en óhætt er að mæla með henni, enda skilar hún sér undantekningalítið í aukinni veltu.

Svara skilaboðum

Eitt af því sem gleymist oft í öllu amstrinu sem fylgir því að setja nýja vefverslun í loftið, er að svara skilaboðum viðskiptavina. Hvort sem um ræðir tölvupósta eða skilaboð á samfélagsmiðlum, þá er mikilvægt að svara spurningum og vangaveltum viðskiptavina og sýna frá fyrsta degi að þeir skipti þig mestu máli.

Það er nefnilega ekkert sem kemur í stað fyrir mannleg samskipti. Þú hefur eflaust ekki farið varhluta af allri umræðu um sjálfvirkar svarvélar eða botta sem svara á samfélagsmiðlum, og slík tækni er góðra gjalda verð. Til að byggja upp traust er samt ekkert sem getur komið í stað manneskju, því við viljum og kjósum langflest frekar að eiga í samskiptum okkar á milli frekar en við tölvur, ef okkur stendur það til boða.

Auðvitað eru þau enn fleiri atriðin sem þarf að huga að við gerð vefverslunar, en þau sem við höfum tekið saman hér mætti kalla býsna algild. Hver vefverslun er einstök og þannig erfitt að sjá fyrir allar hraðahindranir og agnúa. Þegar við stöndum frammi fyrir slíkum vandamálum er gott að hafa í huga, að oft er auðveldara og ódýrara að laga sig og vefverslunina að því vefumsjónarkerfi sem er valið, en að láta skrifa dýrar sérlausnir.

Við vonum að þér gangi vel að opna vefverslunina þína og erum boðin og búin að aðstoða þig við að setja upp Netgíró, þegar þér hentar.