Að markaðssetja vefverslun er ein helsta undirstaða árangurs hennar. Því er mikilvægt að skoða vandlega hvaða leiðir eru færar og hvað skilar bestum árangri. 

Það er afskaplega spennandi og skemmtilegt að opna vefverslun. Þú leggur nótt við nýtan dag við að koma henni á laggirnar og sjá til þess að allt virki eins og það á að gera, velur rétta vefumsjónarkerfið og tryggir að útlitið endurspegli hugmyndir þínar.

Þegar hún er loks sett í loftið, siturðu og fylgist með umferðinni í gegnum Google Analytics og bíður spennt eftir að sjá hvenær fyrsta salan dettur inn.

Stundum fer allt á fleygiferð um leið og maður hleypir vefversluninni af stokkunum, en í flestum tilfellum tekur drjúgan tíma og mikla vinnu að markaðssetja vefverslunina og fá notendur til að heimsækja hana, skoða vörurnar og að lokum versla.

Að markaðssetja vefverslun

Þó að vefverslunin sé komin í loftið, þá mætti segja að þá sé aðeins komið að hálfleik. Erfiðasti hjallinn er samt að baki og nú er komið að því að hefja vinnu við að búa til veltu, þ.e. að markaðssetja vefverslunina.

Markaðssetning getur verið býsna fjölbreytt og snertir nær öll svið vefverslunarinnar þinnar, allt frá verði til þess hvaða notendur þú vilt að versli vörur og þjónustu af þér. Það hvernig notendur upplifa vefverslunina, litir á hnöppum og myndir af vörum, allt er þetta hluti af markaðssetningu.

Við ætlum hins vegar að beina sjónum okkar að því hvaða leiðir þú getur notað á netinu til að koma vefversluninni á framfæri við notendur og eru hvað mest notaðar.

Þó er gott hafa í huga, að það sem hentar einum þarf ekki endilega að skila árangri fyrir aðra. Því er mikilvægt að prófa sig áfram, leyfa sér að gera mistök, safna gögnum, rýna í þau og læra af reynslunni.

Leitarvélabestun

Líklega eru fá hugtök í markaðssetningu á netinu sem jafn mikil dulúð ríkir yfir. Í hugum margra er leitarvélabestun á pari við einhvers konar galdra. En þetta er hins vegar nokkuð sem mikilvægt er að huga að.

Það er gott að gera greiningu á hvaða leitarorð eiga við um vefverslunina þína og reyna að útbúa efni sem ýtir undir að vefverslunin þín birtist eins ofarlega og unnt er í leitarniðurstöðum hjá notendum.

Af hverju ættirðu að vinna að leitarvélabestun:

  • Frábær uppspretta af góðri umferð, sem skilar sér undantekningalítið í góðri veltu.
  • Mjög oft sú sölurás sem skila mestri umferð.
  • Undantekningalítið skilar fjárfesting í leitarvélabestun sér margfalt aftur.

Að hverju þarf að huga?

Með því að skrifa haldgóðar vörulýsingar, sem ná um og yfir 300 orð eru meiri líkur á að vörur raðist ofarlega í leitarniðurstöðum. Þá skipta vörumyndir einnig máli.

Hægt er að lesa meira um leitarvélabestun hér.

Gallinn við leitarvélabestun

Það tekur tíma að vinna að leitarvélabestun og oft koma áhrif hennar ekki fram fyrr en mörgum vikum síðar. Þá getur leitarvélabestun orðið ansi tæknileg og þá getur verið gott að hafa einhvern við höndina sem þekkir vel inn á kröfur Google og annarra leitarvéla.

Vefborðar og keyptar auglýsingar

Margar vefverslanir hafa náð gríðarlega góðum árangri með því að auglýsa sig í gegnum vefborða eða keyptar auglýsingar á samfélagsmiðlum og Google.

Það sem þú þarft að gera upp við þig er, hvort að það sé leið sem hentar vefversluninni þinni og þeim vörum sem þú vilt koma á framfæri. Líklega er hvað auðveldast að ná árangri með slíkar auglýsingar þegar auglýstar eru vörur sem alla jafna má finna í verslunarmiðstöðum.

Líklega eru auglýsingar á Facebook og Instagram hvað mest notaðar hérlendis, sem og auglýsingar á Google. Fjölmargir notast þó einnig við vefborða hjá vefmiðlum, t.d. á Vísir.is og Mbl.is, en þeir eru öllu dýrari en að auglýsa á samfélagsmiðlunum. Þeir geta þó skilað ekki minni umferð eða sýnileika.

Af hverju ættirðu að skoða að nota vefborða og keyptar auglýsingar:

  • Yfirleitt hraðvirk leið að koma vefversluninni á framfæri.
  • Auðvelt að stjórna því hverjir sjá auglýsingar á samfélagsmiðlum og Google.
  • Hægt að nota svona auglýsingar til að fá viðskiptavini og notendur til að snúa aftur og versla meira.

Að hverju þarf að huga?

Mikilvægt er að velja vandlega þær vörur sem þú vilt auglýsa og tryggja að myndefni sé af hæsta gæðaflokki. Það getur haft lykiláhrif um hversu vel auglýsing virkar. Þá er óhætt að mæla með, að fá hönnuð til að hanna vefborða.

Gallinn við vefborða og keyptar auglýsingar

Það getur verið afar kostnaðarsamt að kaupa vefborða og auglýsingar á samfélagsmiðlum. Oft er ekki miklu fé ráðstafað til markaðsmála og því þarf að gæta mjög vel að því hvernig er farið með það.

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar eru mikið notaðir af markaðsfólki við að koma vörum og þjónustu á framfæri. Enda engin furða, notkun Íslendinga á samfélagsmiðlum er gríðarleg og síst minnkandi.

Það skiptir þó verulega miklu máli, að velja vandlega þá miðla sem þú vilt leggja áherslu á og nota í markaðsstarfi þínu. Hér gildir að þekkja vel markhópinn þinn, en vinsældir og notkun samfélagsmiðla er ólík eftir þjóðfélagshópum.

Af hverju ættirðu að nota samfélagsmiðla:

  • Ódýr leið til að ná til viðskiptavina.
  • Oft hægt að ná miklum sýnileika með lítilli fyrirhöfn.
  • Hægt að komast í beint samband við notendur og viðskiptavini.

Að hverju þarf að huga?

Samfélagsmiðlar eru afar ólíkir og notendur þeirra einnig. Því þarf að útbúa efni sem hentar á hverjum miðli fyrir sig, t.d. skila ekki sömu myndastærðir á Instagram og Facebook bestum árangri. Þá er oft mest virkni á þessum miðlum utan hefðbundins vinnutíma.

Gallinn við samfélagsmiðla

Það getur tekið afar langan tíma að byggja upp gott samband við notendur og eignast marga vini. Það fer mikill tími í þessa vinnu og oft er það vinna sem fer ekki fram á skrifstofutíma.

Góður samstarfsaðili

Líklega er ein besta leiðin í dag að eiga góðan samstarfsaðila, sem auðveldar þér að komast í tengsl við tugþúsundir tilvonandi viðskiptavina.

Þar getum við hjálpað þér. Með því að bjóða upp á Netgíró sem greiðslulausn þá býðurðu notendum ekki bara upp á val um hvernig þeir vilja helst greiða, heldur aðstoðum við þig einnig við að koma vörum og þjónustu þinni á framfæri við tugþúsundir Íslendinga.

Hafðu samband ef þú vilt heyra meira. Við hlökkum til að heyra frá þér.