Er salan ekki eins góð og hún var fyrir ári? Er umferðin að dragast saman? Vandamálið þarf ekki að vera vöruframboðið, heldur gæti verið vefverslunin þín og hvernig hún er hönnuð. Athugaðu hvort eftirfarandi atriði séu í lagi. Kannski er kominn tími á að besta ververslun þína. 

Internetið er sífellt að breytast og kröfur notenda hreyfast jafn hratt, þannig að stundum er hreinlega erfitt að fylgja þeim eftir. Sérstaklega þegar kemur að vefverslunum, þar sem örar breytingar í kaupendahegðun hafa oftar en ekki komið vefverslunareigendum á óvart. 

Verslun á netinu er orðin almenn og hópur notenda eru ekki lengur aðeins þeir sem eru hvað fljótastir að tileinka sér nýja tækni. Mörgum notendum finnst oft sem vefverslanir fylgi ekki alltaf nýjustu straumum og stefnum þegar kemur að tækninýjungum og á það einkum við á snjalltækjum. Samkvæmt nýlegri rannsókn í Bandaríkjunum kom fram að aðeins 12% notenda segja, að það sé auðvelt að versla á netinu í gegnum snjalltæki (það má eflaust heimfæra þau gögn upp á okkur Íslendinga). Enda er yfir 81% bandarískra notenda í snjalltækjum sem hætta við kaup eftir að hafa farið inn í greiðsluferil. 

Öll gögn benda til þess að því betur sem þú uppfærir og bestar vefverslun þína, því meiri sala. Hér eru 6 atriði sem gott er að skoða reglulega og athuga hvort megi betrumbæta. 

Snjalltækjaútgáfa

Það eru kannski ekki nýjar fréttir, en heimsóknum á vefsíður í gegnum snjalltæki fer ört fjölgandi og hlutfall þeirra eykst dag frá degi, af því er virðist. Hið sama gildir um kaup í gegnum snjalltæki og er áætlað að árið 2021 munu yfir 50% allra kaupa á netinu verða gerð í gegnum snjalltæki. Mikilvægi þess að besta síðu fyrir snjalltæki ætti því að liggja í augum uppi. 

Margir hönnuðir í dag vinna eftir svokallaðri “Mobile first” stefnu, þ.e. að byrja á því að hanna vef eða vefverslun fyrir snjalltæki, enda eru þarfir slíkra notenda ólíkar þörfum þeirra sem nota tölvur. 

Hraði

Hraði vefsíðu, þ.e. hversu hratt hún hleðst upp í vöfrum notenda, er eitt af mikilvægustu verkefnum vefstjóra í dag. Samkvæmt Google þá er meðal upphleðsluhraði vefsíðna á netinu í dag um 22 sekúndur. Mikilvægi þess að tryggja að vefsíða hlaðist upp hratt hefur aukist hratt á undanförnum mánuðum og í dag raðar Google leitarniðurstöðum m.a. eftir hraða, þ.e. hægar síður skora ekki jafn hátt þegar kemur að leitarvélabestun. Því lengur sem síðan þín er að hlaðast upp í vafra notenda, því meiri líkur eru á að þeir hverfi burt áður en hún nær að birtast. 

Aðgerðahnappar

Líklega mikilvægustu einingar vefverslunarinnar þinnar eru aðgerðahnapparnir eða Call-to-Action hnappar. Þetta eru þau eigindi sem færa notendur nær því að umbreytast í viðskiptavini. Það sem þú þarft að skoða og velta fyrir þér er, hvort þeir séu nægilega sýnilegir, hvort staðsetning þeirra sé góð og hvort að þeir kalli nægilega skýrt eftir viðbrögðum og aðgerðum notenda. 

Ein besta leiðin til að komast að því hvort aðgerðarhnapparnir þínir séu að virka sem best er að framkvæma A/B próf í vefversluninni. 

Greiðsluleiðir og greiðsluferill

Þegar notandi hefur sett vöru í körfu og ákveður að fara inn í greiðsluferil, er mikilvægt að þar sé hvergi neinar hraðahrindranir. Það er einkum tvennt sem hægir þar á notendum og verður til þess að þeir hætti við kaup. Annars vegar eru það þær greiðsluleiðir sem í boði eru. Reynsla okkar er sú, að því fleiri greiðsluleiðir sem notandi getur valið úr, þekkir og treystir, því meiri líkur eru á að viðkomandi klári kaup. Netgíró hefur þannig fyrir löngu sannað gildi sitt og nota tugþúsundir notenda Netgíró til að versla á netinu. 

Hins vegar eru það síður þar sem notendur þurfa að fylla út persónuupplýsingar. Margar vefverslanir hafa þannig brugðið á það ráð að bjóða notendum að nota svokallaða gestaaðganga eða óska eftir persónuupplýsingum eftir að kaup hafa verið staðfest. Í raun mætti segja, að því betur sem þér tekst að einfalda greiðsluferlið, því meiri líkur eru á að notendur kaupi, t.d. býður Amazon notendum sínum upp á svokölluð 1-smells-kaup. 

Vörumyndir

Því betri myndir, því meiri sala. Þetta virðist ekki flókið, en getur verið býsna flókið. Sérstaklega ef þú ert að selja vörur frá öðrum og treystir á vörumyndir þeirra. Vörumyndir eru hins vegar hluti af heildarupplifun notenda af vefversluninni þinni og þú þarft þannig að ganga úr skugga um að allar vörumyndir standist þær kröfur sem þú gerir til þeirra. 

Á vef íþróttavörumerkisins Gymshark frábært dæmi um hvernig hægt er að setja fram vörumyndir þannig að þær séu í senn í takti við heildarupplifun notenda annars vegar og hins vegar lýsandi fyrir vörurnar sjálfa.  

 

Vörulýsingar

Góðar myndir eru eitt, en þú þarft einnig að ganga úr skugga um að vörulýsingar séu góðar og áhugaverðar. Fyrir utan að góðar vörulýsingar draga úr því að vörum sé skilað eða skipt, því notendur fá þannig betri sýn á vöruna sem þeir ætla að kaupa, þá hjálpa góðar vörulýsingar upp á leitarvélabestun. 

Vissulega búast notendur ekki við ítarlegri vörulýsingu á einföldum eða vel þekktum vörum, en ef þú ert að selja flóknari eða dýrari vöru þá verður þú að leggja þá vinnu á þig að skrifa góðar vörulýsingar. Þá er líka gott að A/B prófa vörulýsingar, rétt eins og aðgerðarhnappa og myndir, því þannig nærðu árangri.