Það eru allir svölu krakkarnir að tala um upsell. En hvað er þetta og hvernig er best að standa að upsell? Hér eru 9 frábærar leiðir að aukinni sölu. 

Oft sér maður ekki skóginn fyrir trjánum. Maður rýnir í sölutölurnar og vefgreiningargögnin til að reyna finna leiðir til að auka veltuna. Margir bregða á það ráð að auka sýnileikann, kaupa auglýsingar og fjölga færslum á samfélagsmiðlum.

Þegar Amazon var í þessum sporum fór fyrirtækið allt aðra leið. Þau skoðuðu hvernig þau gætu aukið virði hverrar heimsóknar, þ.e. að fá hvern notanda til að eyða meiru. Til þess gerðu þau fjölmargar (tugi ef ekki hundruði) A/B prófanir með upsell (hér með er auglýst eftir góðri þýðingu á upsell, uppsölur hefur einhvern veginn aðra merkingu…).

Það eru ekki mörg fyrirtæki hérlendis sem hafa sett mikla orku í upsell í gegnum vefverslanir sínar, að öðru leyti en að reyna að fá notendur til að koma aftur eftir kaup og versla meira. En upsell snýst fyrst og síðast um að auka virði hverrar heimsóknar, ekki að fjölga heimsóknum.

Hér eru 9 leiðir fyrir þig að auka söluna í gegnum upsell.

Gott upsell hjálpar notandanum

Það er ekki skynsamlegt að vera með upsell „upsellsins“ vegna, heldur þarf það að mæta ákveðinni þörf hjá notendum. Þannig bjóða mörg vefverslunarkerfi upp á sjálfvirka Tengdar vörur virkni, en það eitt og sér er ekki endilega alltaf hjálplegt notandanum. Jú, viðkomandi getur séð hugsanlegar staðgengilsvörur, en gott upsell nær lengra en svo.

Hugsaðu líka um hvaða vörur seljast oft með viðkomandi vöru eða hvaða vörur eiga saman við viðkomandi vöru. Þannig gæti raftækjaverslun bent notendum sem versla snjallsíma að kaupa einnig hulstur eða veski um símann, heyrnartól o.s.frv. ásamt því að vísa á staðgengilsvörur.

Það er hægt að nota gervigreind eða einhvers konar viðskiptatækni til þess að útbúa þessar upplýsingar fyrir notendur, en fyrir margar minni vefverslanir er það ekki valkostur. Mörg vefverslunarkerfi bjóða hins vegar upp á að vefstjórar geti fært inn slíkar tengingar sjálfir. Það getur vissulega verið þó nokkur handavinna, en getur margborgað sig.

Nýttu hvert tækifæri fyrir upsell

Mörg fyrirtæki hérlendis senda manni tölvupóst að loknum kaupum í þeim tilgangi að stunda upsell. Tækifærin eru hins vegar víðar. Flugfélög hafa fyrir löngu uppgötvað mikilvægi þess að stunda upsell þegar notandinn er í greiðsluferlinu, en þá bjóða þau notendum að borga fyrir ákveðið sætisnúmer, bóka bílaleigubíl og svo mætti lengi telja.

Rétt eins og hægt er að setja dálk á vörusíður sem kallar fram upplýsingar um hvaða vörur aðrir notendur hafa keypt með viðkomandi vöru, er hægt að setja svipaða dálka inn á körfusíður og víðar. Með því að prófa þig áfram, þá færðu betri tilfinningu fyrir því hvað það er í raun og veru sem hefur áhrif á verðmæti hverrar heimsóknar og hvernig þú getir aukið það.

Ekki vera of ýtin

Það er eitt að minna á sig með tölvupósti öðru hverju eða prófa sig áfram með upsell á ólíkum stöðum í vefversluninni. Annað að vera með blikkandi kassa eða sprettiglugga á öllum síðum með tilboðum.

Ekki trufla notandann á meðan viðkomandi er að skoða vöru með virkni eins og sprettigluggum, en reyndu frekar að notfæra þér hegðun og hegðunarmynstur notenda, t.d. er auðvelt að útfæra sprettiglugga sem taka mið af hegðun notenda, frekar en að birtast alltaf, alls staðar.

Að taka mið af hverjum og einum notanda

Stærri vefverslanir á borð við Amazon geta leyft sér að þróa gervigreind sem metur hegðun hvers og eins notanda og láta tæknina birta viðkomandi notanda vörur byggðar á reiknilíkunum, mati á fyrri kauphegðun og hegðun sambærilegra notenda.

Vandamálið við slíkt, er að það er afar kostnaðarsamt að útfæra þessa tækni. Hins vegar getur það verið afar hjálplegt að greina markhópinn og útbúa kaupendapersónur (sjá meira hér), þar sem það getur auðveldað þér að tengja saman vörur, sérstaklega þegar þú setur þær upplýsingar í samhengi við gögn úr sölukerfinu þínu.

Með þessi gögn í höndum verður enn auðveldara að útbúa markpóst og jafnvel sprettiglugga þar sem markmiðið er að stunda upsell.

Frí heimsending

Frí heimsending er í sjálfu sér ekki upsell. Frí heimsending fyrir öll kaup yfir ákveðinni upphæð er það hins vegar. Þannig ertu með innbyggðan hvata fyrir notendur að versla fyrir ákveðna lágmarksupphæð.

Galdratalan þrír

Framsetning á upsell skiptir máli og hafa Amazon til að mynda aldrei fleiri en 6 vörur í hverjum valramma. Ástæðan er einföld, ef valið er á milli of margra hluta þá eru meiri líkur en minni að notandinn velji ekki neitt.

Þrír er hins vegar algjör galdratala. Og það sem meira er, standi notendur frammi fyrir vali milli þriggja hluta eru langmestar líkur á að þeir velji það atriði sem er í miðjunni.

Ekki vera of gráðug

Upsell virkar best þegar við náum að tengja saman vörur við upphafleg kaup notanda. Það eru líklega fáir notendur sem þurfa að kaupa nýjan snjallsíma ef þeir eru að hugsa um að kaupa hleðslutæki fyrir bíl. En líklega væri hægt að selja þeim sem eru að kaupa nýjan snjallsíma slíkt tæki.

Það er ágæt þumalfingursregla að miða upsell að vörum sem kosta ekki meira en fjórðung af verði þeirrar vöru sem notandi ætlaði sér upphaflega að kaupa.

Eftir-kaup upsell

Eins og áður segir þá eru mörg fyrirtæki hér að notast við markpóst og aðra tækni til að fá notendur til að snúa aftur í vefverslun þeirra og versla meira. Þessi leið hefur margsannað sig og ef þú ert ekki að nota markpóst með þessum hætti, þá hvetjum við þig eindregið til að skoða þessa leið nánar.

Þegar ekkert annað virkar

Stundum er virkilega erfitt að sannfæra notendur um að kaupa, hvorki upprunalegu vöruna né upsell vörur. Þá getur verið pæling að prófa „down-sell“.

Þannig gæti verið sniðugt að bjóða viðkomandi að kaupa aðra vöru á tilboði eða bjóða viðkomandi afsláttarkóða, enda er verðmætara fyrir þig að fá inn einhverja sölu í stað engrar.

Við getum hjálpað þér

Netgíró er frábær og einföld greiðsluleið, sem tugþúsundir Íslendinga þekkja og nota daglega. Það hefur margsannað sig að vefverslanir sem bjóða upp á fjölbreyttar greiðsluleiðir ná inn meiri sölu og þar kemur Netgíró sterkt inn.

Hafðu samband ef þú vilt bjóða upp á Netgíró. Við getum aðstoðað þig við að koma greiðslulausninni upp í vefversluninni þinni. Við hlökkum til að heyra frá þér.