Það er krefjandi að reka vefverslun og enn erfiðara að ná árangri þegar margir eru um hituna. Hér eru 7 leiðir til að ná árangri á netinu. 

Að reka vefverslun er gríðarlega krefjandi og skemmtilegt verkefni. Það kallar á mikla vinnu, blóð, svita og tár, ef svo mætti að orði komast. En því miður er árangurinn ekki alltaf gefinn og stundum þarf maður að leggjast í mikla naflaskoðun til að átta sig á hvað stendur í vegi fyrir árangrinum.

Við þekkjum mýmörg dæmi um góðar vefverslanir sem hafa náð miklum árangri, bæði vefverslanir sem reknar eru af stórum fyrirtækjum og eins vefverslanir sem hafa byrjað smáar og eru í dag afar vinsælar. Okkur langaði að skoða hvaða atriði það eru sem urðu til þess að viðkomandi vefverslanir náðu árangri og heyrðum því í nokkrum vinum okkar.

Við komumst að því að það eru í raun 7 atriði sem leiða til þess að vefverslanir nái árangri á netinu og eru þau eftirfarandi.

Skýr markmiðasetning

Fyrir mörgum liggur þetta kannski í augum uppi, en það sem við lærðum er að þeir sem hafa náð hvað mestum árangri á netinu hafa ekki bara sett sér skýr markmið, heldur hafa markmiðin verið mælanleg og brotin niður í smærri markmið.

„Það er bara skemmtilegra að standa í þessu, þegar maður hefur markmiðin fyrir framan sig og sér að það er hægt að ná þeim,“ sagði einn viðmælandi okkar. Markmiðasetning hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og voru flestir af þeim sem við ræddum við sammála um mikilvægi hennar og nefndu margir hve það hjálpaði að hafa alltaf markmiðin fyrir augunum.

Rútínur sem stuðla að heilbrigði

„Ég gef mér alltaf tíma til að komast í ræktina og taka þátt í verkefnum barnanna, þannig að ég nái að tæma hugann öðru hvoru,“ sagði annar viðmælandi. Enn annar viðmælandi nefndi að hún reyndi alltaf að tryggja að hún næði að sofa vel.

Rútínur sem stuðla að heilbrigði eru afar mikilvægar. Svefn, heilsa og mataræði er nokkuð sem mjög margir sem hafa náð árangri í viðskiptum nefna, enda erfitt að ná árangri þegar maður er illa sofin, svöng og jafnvel heilsutæp.

Settu þig í spor viðskiptavinarins

Að skilja viðskiptavininn og þarfir hans er einn af grunnforsendum markaðsfræðinnar. Að greina markhópinn og setja upp kaupendapersónur er því nokkuð sem getur verið grunnur að því að ná árangri. Það getur til að mynda hjálpað þér að fá meira út úr auglýsingum á netinu.

„Ég áttaði mig almennilega ekki á hraðahindrunum á síðunni hjá mér, fyrr en ég sat með mömmu og fékk hana til að kaupa á henni,“ nefndi einn viðmælandi okkar. Það að setja sig spor viðskiptavinarins snýst líka um upplifun, notendaviðmót og að skilja ferli hans frá upphafi til enda.

Það kann að virðast stórt verkefni en stundum þarf ekki meira til en að fá einhvern vin eða ættingja til að fara í gegnum ferlið og segja til vamms, ef svo mæti að orði komast. Það getur verið ótrúlega hjálplegt.

Tímastjórnun

Tími þinn skiptir máli. Það skiptir líka miklu máli hvernig við stjórnum tíma okkar. Alltof oft lendum við í að reyna gera margt í einu. Hver kannast ekki við að vera að vinna í einhverju verkefni en svo poppar upp tilkynning um nýja tölvupóst eða skilaboð á Facebook?

Því miður getur tæknin þannig verið okkur til vansa, þannig að við erum sífellt að hlaupa á eftir hinum ýmsu tilkynningum og náum þannig aldrei að einbeita okkur að einhverju einu verkefni.

„Mér fannst ég svo tætt, áður en ég slökkti á öllum notifications. Nú svara ég bara tölvupóstum í upphafi dags og áður en ég hætti seinni partinn. Það hefur margfaldað afköstin hjá mér,“ sagði einn viðmælandi okkar.

Leyfðu þér að gera mistök

Það er í lagi að gera mistök, svo lengi sem maður lærir af þeim. Ein af helstu möntrum sprotafyrirtækja er einmitt að gera tilraunir, mistakast og læra af mistökunum. Ef við höfum ekki rými til að gera mistök, þá er allt eins víst að við munum aldrei ná árangri.

„Besti kennarinn mistök eru,“ sagði lítil græn geimvera í frægri geimóperu. Ef við gerum aldrei mistök, þá er hættan sú að við lærum ekki neitt nýtt, hvorki um vefverslunina okkar, markhópinn eða okkur sjálf.

Hver króna skiptir máli

Það er kannski verið að bera í bakkafullan lækinn með því að tiltaka svona atriði, en af þeim 8 aðilum sem við ræddum við nefndu allir hve miklu máli skipti að vera alltaf meðvitaður um hverja krónu, hvort sem það er velta eða það sem þú eyðir í auglýsingar, uppfærslur á vefversluninni og svo mætti lengi telja.

„Mér fannst ég ekki ná alvöru árangri, fyrr en ég fór virkilega að spá í fjárhagshliðina. Með því að reyna kreista eins mikið úr hverjum þúsund kalli og ég mögulega gat, þá fyrst fannst mér reksturinn skila góðum hagnaði,“ sagði einn viðmælenda okkar.

Ekki gleyma grundvallaratriðunum

Láttu þér líða vel. Hugsaðu vel um starfsfólkið þitt og það mun hugsa vel um þig. Ekki gleyma grundvallaratriðum á borð við að brosa og njóta þess að vera til. Það er engum til gagns að brenna út eða kulna í starfi. Ekki gleyma þér algjörlega yfir þessu, tryggðu að þú eigir alltaf tíma til að sinna fjölskyldu, vinum, áhugamálum og fyrir sjálfa þig.

„Þegar ég hafði ekki séð konuna mína og barnið okkar í þrjár vikur, tók hún í taumana. Sagði að ég myndi drepa mig á þessu. Það var alveg rétt hjá henni. Ég var svo á kafi í vinnu að ég sá ekki lengur út fyrir kassann,“ sagði einn viðmælandi okkar.

Njóttu þess að vera til þannig að þú getir notið þess að mæta þeim verkefnum sem rekstur vefverslunar færir þér.

Góður vinur

Við hjá Netgíró erum boðin og búin að hjálpa þér að ná árangri. Við erum góður vinur sem þú getur treyst á. Við getum aðstoðað þig við að koma vörum og þjónustu á framfæri við tugþúsundir viðskiptavina. Þannig höfum unnið með hundruðum vefverslana í gegnum tíðina.

Með því að bjóða upp á Netgíró sem greiðsluleið eru meiri líkur á að notendur versli við þig. Þá bjóðum við líka verslunum að ná til notenda Netgíró í gegnum mánaðartilboðin okkar, sem hefur gefið mjög góða raun.

Heyrðu endilega í okkur og saman getum reynt að ná enn meiri árangri. Við hlökkum til að heyra í þér.