Það getur verið gaman að spá í framtíðinni. Hér eru 10 breytingar sem munu breyta netverslun á næstu árum. 

Netverslun er enn þá, þótt ótrúlegt megi virðast, frekar ungt fyrirbæri. Það er ekki í raun ekki ýkja langt síðan fyrstu íslensku netverslanirnar voru settar á laggirnar en við erum samt komin býsna langt. Á næstu árum megum við eiga von á heilmikilli þróun og ef við horfum til þess hversu hratt vefverslun hefur vaxið þá má alveg búast við íslenskar vefverslanir muni verða áfram í fararbroddi. Hingað til hafa þær verið fljótar að tileinka sér ýmis konar nýjungar og margir netverslunarstjórar óhræddir við að prófa sig áfram.

Við ákváðum að setjast aðeins niður og velta fyrir okkur hvernig framtíðin gæti litið út. Auðvitað eru allar slíkar vangaveltur alltaf ákveðinn samkvæmisleikur, en margt af því sem við nefnum hér er byggt á reynslu annars vegar og hins vegar þær breytingar sem við höfum þegar séð og reikna má með að muni þróast áfram. Hér eru 10 breytingar sem við reiknum með að muni breyta netverslun á næstu árum.

Aðeins fyrir þig

Sífellt fleiri netverslanir notast í dag við tækni sem gerir þeim kleift að læra inn á notendahegðun og birta vörur út frá fyrri hegðun viðkomandi notanda eða sambærilegra notenda.

Við reiknum með að þessi tækni muni á komandi árum þróast enn frekar, þannig að tölvulíkön geti séð enn betur fyrir hvað hentar hverjum og einum notanda, og hún birti vöruval sem sniðið er að hverjum og einum.

Það er hins vegar mikil jafnvægislist að gera þetta rétt, þ.e. þannig að þetta bæti í raun notendaupplifun og þannig að notendum finnst ekki verið að ráðast inn á sig eða hefta valfrelsi sitt.

Meðferð gagna og traust

Eins og eflaust margir vefstjórar þekkja, þá eru kröfur um meðferð gagna sífellt að aukast. Við hjá Netgíró höfum alla tíð lagt ríka áherslu á að öll meðferð gagna fylgi ströngustu kröfum og göngum við í raun lengra en lög gera ráð fyrir.

Á næstu árum má reikna með að þessar kröfur muni enn aukast, en jafnframt að notendur séu viljugir til að deila gögnum um sig, svo lengi sem það skili sér til þeirra í bættri notendaupplifun.

Þá kom fram í rannsókn unninni á síðasta ári að 64% notenda láta sig meðferð persónugreinanlegra gagna varða og misnoti fyrirtæki slík gögn hefur það mikil áhrif á það traust sem viðkomandi beri til fyrirtækisins.

Einfaldar en fjölbreyttar greiðslulausnir

Fyrir tíu árum var Amazon tíu ára, Facebook aðeins sex ára og Instagram ekki einu sinni á netinu. Síðan þá hefur mikið breyst og það sama gildir um greiðslulausnir.

Í dag vilja notendur einfaldar en fjölbreyttar greiðslulausnir. Hérlendis hafa lausnir á borð við Netgíró, Aur og Kass náð góðri fótfestu og ljóst að sú þróun mun halda áfram.

Þá vilja notendur einnig geta notað hvaða greiðslulausn sem þeir kjósa, hvort sem það er á netinu eða í hefðbundinni verslun. Eins að þær lausnir sem í boði eru renni áreynslulaust saman þannig að upplifunin sé eins eða svipuð í flestum tilfellum.

Áskriftarmódel

Það verður sífellt erfiðara að ná í nýja viðskiptavini, enda er samkeppnin á netinu alltaf að aukast sem og kostnaður við að ná í notendur að hækka.

Því hafa margir brugðið á það ráð að bjóða upp á áskriftarmódel, þ.e. að notendur gerist áskrifendur að því að fá vörur. Þannig hefur t.a.m. fyrirtækið KiwiCo gert það mjög gott með því að útbúa vörur fyrir börn og unglinga, sem foreldrar geta orðið áskrifendur að.

Einnig eru margir listamenn með áskrifendur að efni og verkum sínum, t.d. í gegnum síðuna Patreon.

Við reiknum með að þessi þróun muni halda áfram og sífellt fleiri netverslanir muni taka upp þetta módel.

Gervigreind

Gervigreind og viðskiptatækni er sífellt að þróast og fyrir tveimur árum kom í ljós að 250 stærstu netverslanir notast að einhverju leyti við gervigreind. Sú tala er líka orðin enn hærri núna.

Það getur verið mjög hagkvæmt að tileinka sér þessa tækni, hvar sem er í ferlinu. Þannig hafa margir tekið upp notkun á spjallmennum eða notast við gervigreind í markaðssetningu, t.d. til að besta auglýsingar á leitarvélum eða samfélagsmiðlum.

Fljótari afhending

Fyrir ekki svo löngu prófaði netverslunin Aha.is sig áfram með að nota dróna til að afhenda vörur hérlendis. Amazon hefur einnig verið að gera slíkar prófanir sem og verslunin Walgreens.

Það er deginum ljósara að þó að enn eigi eftir að þróa þessa afhendingarleið þá mun hún taka yfir fyrr eða síðar. Notendur hafa vissulega þolinmæði en, rétt eins og með greiðslulausnirnar, þá vilja þeir hafa val.

Z kynslóðin

Í dag eru meðlimir Z kynslóðarinnar 7-22 ára. Á næstu tíu árum munu þessir einstaklingar öðlast meiri kaupmátt – og það er því mikilvægt að gefa gaum að þeim gildum og kauðhegðun sem þau eru að tileinka sér.

Ýmsar rannsóknir benda til þess að þessi kynslóð er mun samfélagslega ábyrgari, leggur meiri áherslu á jafnrétti og að allir eigi rétt á að vera fullgildir meðlimir samfélagsins.

Bætt vörusýn

Stundum er ekki bara nóg að sjá vöruna. Margir vilja fá betri tilfinningu fyrir henni en svo. Það þýðir samt ekki að þú þurfir að vera með hefðbundna búð þar sem notendur geta komið og þreifað á vörum.

Sífellt fleiri vefverslanir hafa verið að taka í notkun þjónustur sem gera þeim kleift að birta þrívíðar myndir af vörum, þannig jafnvel að notendur geti snúið vörunni á alla kanta.

Þá er augmented og virtual reality tækni sífellt að verða fyrirferðameiri og má reikna með að hún gerir notendum jafnvel kleift að „prófa“ vörur áður en þeir kaupa þær.

Spálíkön

Með því að nota spálíkön unnin upp úr vefgreiningargögnum og gögnum um notendahegðun má oft spá fyrir um hvernig netverslun mun breytast eða þróast. Eitt af því sem við teljum okkur sjá, er að sífellt fleiri eru farnir að notast við þessi líkön og notkun þeirra muni bara aukast.

Með því að greina notendahegðun, markhópa og netumferð, verður enn auðveldara að búa til tilboð sem virkilega skila tilætluðum árangri og auka sölu. Þá getur þessi vinna einnig auðveldað þér að gera hverra heimsókn að persónulegri upplifun hvers notanda fyrir sig og bera kennsl á óæskilega hegðun, svo sem svindl eða öryggisbresti.

Samfélagsvæðing

Það að vilja tilheyra er mjög sammannleg tilfinning. Við viljum öll tilheyra ákveðnum hópi, vera hluti af einhverju sem er stærra en við.

Vörumerki sem hafa gert þetta vel, þ.e. búið til samfélög í kringum sig, munu verða enn stærri á komandi árum, enda hefur sýnt sig að slík vörumerki sjá mun meiri virkni notenda sinna. Oft framleiða þeir notendur mun meira af efni fyrir viðkomandi vörumerki en það gerir sjálft.

Þannig verða ummæli og meðmæli um vörur enn mikilvægari og jafnvel sterkari skilaboð en sjálf markaðssóknin. Það er því ekki úr vegi að huga vel að viðskiptavinum og byggja upp gott samband við þá, nú sem aldrei fyrr.

Samantek

Ekkert okkar veit hvað framtíðin ber í skauti sér og þó að þessi spá sé að mestu til gamans gerð eru hér nokkur atriði sem gott er að gefa gaum að. Tækninýjungar, breytingar á kauphegðun og ný kynslóð notenda mun breyta landslagi netverslana svo um munar. Ekki seinna vænna að fara að huga að því hvernig þú vilt bregðast við.

Um Netgíró

Netgíró er einföld og þægileg greiðslulausn, sem tugþúsundir Íslendinga nota í hverjum mánuði. Við leggjum okkur fram um að bjóða greiðslulausnir sem henta nútíma viðskiptaháttum og viljum að notendur hafi val hverju sinni um með hvaða hætti þeir vilja greiða fyrir vörur og þjónustu.

Við bjóðum notendum okkar og viðskiptavinum frábæra þjónustu og leggjum okkur fram um að hjálpa þér að láta vefverslunina þína vaxa. Heyrðu endilega í okkur ef þú vilt bjóða upp á Netgíró.